„Þrái rólegt og yfirvegað líf“
Magnús Kjartansson hefur skipt um gír eftir hjartaáfall.
„Lífsvélin mín fór snemma á þeytivindingu og nú er ég að hamast við það að ná mér í alla þá sálarró sem ég get og tel mig eiga inni. Ég þrái ekkert heitar en bara rólegt og yfirvegað líf. En ég er ákaflega sáttur við þann tíma sem ég átti með sjálfum mér. Ég hefði ekki viljað missa af einni mínútu af þessu hraða lífi sem ég lifði,“ segir tónlistarmaðurinn Magnús Kjartansson, í viðtali á vefsíðunni Lifðu núna.
Maggi Kjartans fékk hjartaáfall í fyrra sem fór vel og í viðtalinu segist hann vera afar þakklátur. „Það er erfitt að vera bæði dauður og kátur í einu. En það er voða gaman að vera lifandi og kátur. Ég byrjaði upp á nýtt og finnst ég aftur vera tuttugu. Ég var eiginlega sendur heim í lúdóinu og er að átta mig betur á hversu veikur ég var orðinn,“ segir Maggi, sem hlakkar til framtíðarinnar.