Þorrablót að hætti víkinga
Nú þegar vika er liðin af þorra er ekki laust við að sumir séu komnir með súrt bragð í munninn. Krökkunum á leikskólanum Vesturbergi í Reykjanesbæ finnst súrmetið hin mesta gæða fæða og halda þorrablót á leikskólanum sínum í dag. Margrét Dagmar Loftsdóttir, Katla Guðbjörg Gunnarsdóttir, Krista María Lindudóttir og Sigurður Galdur Loftsson sögðu blaðamanni frá því sem þeim finnst gott að borða og hvers vegna þau halda þorrablót. „ Við höldum þorrablót vegna þess að okkur finnst það svo gaman og svo eru konurnar hérna svo sniðugar að fá hugmyndir, þeim datt þetta í hug," sagði Margrét Dagmar. „Mér finnst ekkert gaman", sagði Sigurður Galdur, heldur fýldur og hann sagðist ekki borða neitt af þessum þorramat. Stelpurnar sögðust allar borða Þorramat, og harðfiskur er í uppáhaldi hjá þeim.„Harðfiskur með smjöri á og hákarl finnst mér best," sagði Katla og Margrét tók undir það, en sagði að hangikjöt væri uppáhaldið sitt af þorrabakkanum. Eftir viðtalið fóru krakkarnir niður í sal Vesturbergs, það sem þau sungu „Nú er frost á Fróni" áður en þau fóru að borða. Þorrablótið hjá þeim var í víkingastíl og allir strákarnir voru með víkingahjálma og stelpurnar með ennishlað og langeldur var á gólfinu til að minna á gamla tíma. Hér fyrir neðan eru myndir frá þorrablótinu.