Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Fimmtudagur 1. ágúst 2002 kl. 15:35

Þjóðhátíðin hefur lítið breyst með árunum

Nú er verslunarmannahelgin á næstu grösum og hjá sumum hefst hún i dag. Árni Sigfússon, bæjarstjóri, er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum og því með góða reynslu af þjóðhátíð þeirra Eyjamanna. En þegar blaðamaður spurði hann hvaða verslunarmannahelgi stæði uppúr þá komu upp í huga hans nokkrar helgar. Fyrst bar að nefna Þjóðhátíðina 1978. Þá hafði Árni tekið þátt í samkeppni um þjóðhátíðarlagið svokallaða og borið sigur úr bítum. Það virtist ljóma yfir Árna þegar hann hugsaði til baka og minnist þess að hafa setið í brekkunni og heyrt lagið sitt hljóma yfir dalinn. Þjóðhátíðin 1982 er Árna einnig minnistæð fyrir þær sakir að þá var Védís Hervör dóttir hans nýfædd og hennar fyrsta þjóðhátíð. Árni segir að það sé nær ógleymanleg stund að sitja í brekkunni og horfa á flugeldasýninguna og síðan brennuna, stemmningin á sér enga líka. En þó að Árni sé ýmsu vanur er við kemur þjóðhátíð þá hefur hann einnig í minningunni aðra tegund skemmtunar þessa helgi. Foreldrar Árna héldu oft sýna eigin útihátið ef svo má kalla. Tjaldað var í bakgarði foreldranna í Garðabæ og oft margt um manninn, enda eru þau systkinin sex talsins og flest komin með fjölskyldu. Systkinin sáu sjálf um að skemmta sér og öðrum fjölskyldumeðlimum. Að sögn Árna var oft mikið umstang um þessa hátíð. Árni segir Þjóðhátíð lítið hafa breyst síðan hann var peyji. Árni minnist þess að hafa gengið upp að mörgum manninum er þeir sváfu úr sér í hlíðum brekkunnar með hálf-fulla brennivínsflösku í hendinni. Árni segir þó að í dag virðist það ekki vera jafn algengt nú að sjá menn dauðadrukkna og virðist það vera helsta breytingin. Það hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu hvort að setja ætti aldurstakmark á útihátíðir. Árni vill ekki hleypa sínum börnum á útihátið eftirlitslausum þar sem hann telur þau ekki hafa gott af því að vera í slíku umhverfi án eftirlits fyrr en í fyrsta lagi við 18 ára aldurinn. Og hvetur hann að lokum foreldra að gera slíkt hið sama.

Myndin: Árni ásamt „Súlla“ frænda sínum en hann var mikill sigmaður úr Eyjum og sýndi listir sínar á þjóðhátíð.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024