Þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin...
- Lokaorð Ingu Birnu Ragnarsdóttur
Faðir vor. Faðir vor okkar allra. Bænin sem við lærðum sem lítil börn og höfum sagt upphátt allar götur síðan við skírnir, fermingar og jarðarfarir. Hef sjálf aldrei verið mjög trúuð á hinn eiginlega guð eða iðkað trú í mínum þrönga íslenska skilningi. Hvernig trúum við, á hvað trúum við og hvernig iðkum við trúna? Hér á ég ekki eingöngu við kristna trú, heldur allar tegundar trúar, ásamt auðvitað trú á hið æðra, trú á framhaldslíf, trú á hið góða og svo mætti lengi telja.
Á ferð minni um Indónesíu nýverið kynntist ég lítillega þeirri trú sem meirihluti þeirrar þjóðar aðhyllist, hindúisma. Aldrei áður hef ég upplifað heilt samfélag eins samstíga í trú sinni á alla þá guði sem tilheyra hindúatrú, þar sem hamingjan er einkennandi fyrir íbúa þessa fallega lands. Hver einasti íbúi skælbrosandi allan daginn, þakklátur fyrir stöðu sína og sinn guð. Þakklætið skein í gegn þrátt fyrir kröpp kjör. Efnishyggjan víðsfjarri sem og öfund út í náungann. Heilu stórfjölskyldurnar búa oft saman í litlu rými, ekkert kommentakerfi, adidas skór eða ríkidæmi á nokkurn hátt. Ég geri mér hins vegar grein fyrir að þetta er aðeins önnur hliðin á peningnum, trúarstríð hafa ríkt milli trúarhópa og þar er hindúatrú ekki undanskilin. Þrátt fyrir það er ég hugsi yfir því hvað það er sem gerir okkur máttug til þess að lifa okkar lífi til fullnustu, gefur okkur styrk til þess að skapa eigin hamingju og hvernig trúin getur spilað hlutverk í þeirri vegferð.
Flest trúum við á eitthvað, eitthvað æðra eða eitthvað framhald. Við göngum öll í gegnum flókin verkefni í lífinu, sem móta okkur en öll fáum við líka verkfæri í hendurnar við fæðingu til þess að skapa okkar eigið líf. „Þú liggur eins og þú býrð um þig“, er mantra sem ég hef haft að leiðarljósi, þrátt fyrir að öll fáum við mismunandi mikla forgjöf í vöggugjöf. Ást, tími og dauði er það sem sameinar okkur öll, við höfum öll þann eiginleika að elska, eigum öll tíma og munum öll kveðja á endanum. Hvernig við náum hins vegar að nýta tímann, sýna fólkinu í kringum okkur ást og umhyggju og lifa lífi okkar til fullnustu hefur með viðhorf okkar og trú að gera. Stöldrum við, gefum okkur tíma til þess að finna okkar innsæi, trúa á það og taka ákvarðanir út frá því sem veitir okkur hamingju. Okkar er ríkið, mátturinn og dýrðin - við erum skaparar okkar eigin lífs.