Þingmenn Nato heimsóttu Reykjanesvirkjun
Efnahagsnefnd NATO-þingsins fundar á Íslandi 26.-28. september 2012. Meðal umræðuefna á fundum nefndarinnar eru norðurslóðastefna Íslendinga og viðskiptatækifæri á norðurslóðum, endurreisn efnahagskerfis Íslendinga, aðildarumsókn að ESB og sjávarútvegsstefna Íslands. Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður er fulltrúi Íslandsdeildar í nefndinni.
Í gær heimsótti hópurinn Reykjanesvirkjun og fræddist um orkumál. Að því loknu var Bláa lónið heimsótt þar sem snæddur var kvöldverður. Blaðamaður Víkurfrétta myndaði hópinn í Reykjanesvirkjun en gestir voru afar áhugasamir um orkuvinnslu okkar Suðurnesjamanna.
Einnig mun forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hitta nefndarmenn og ræða norðurslóðamál í dag en hópurinn heldur af landi brott á morgun.
Nefndin samanstendur af þingmönnum frá aðildarríkjum NATO m.a.: Króatíu, Tékklandi, Grikklandi, Portúgal og Ítalíu.