Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þetta var okkar tækifæri
Sunnudagur 27. maí 2018 kl. 06:00

Þetta var okkar tækifæri

- Björgvin Ívar stillir píanó í Boston

Fyrir um tíu árum síðan keypti keflvíski tónlistarmaðurinn Björgvin Ívar Baldursson sér flygil í lélegu ástandi og gerði hann upp með frændum sínum. Þeir tóku hann í sundur án þess að vita hvað þeir væru að gera en útkoman varð flott þó að hljóðfærið sé í dag ekkert í sérstöku ástandi. Þessi frumraun vakti mikinn áhuga Björgvins á píanóstillingum og viðgerðum og eftir það fór hann að skoða skóla. Þann 1. september síðastliðinn flutti Björgvin til Bandaríkjanna í nám við elsta iðnskóla landsins, North Bennet Street School í Boston og býr þar nú með fjölskyldu sinni.

„Öllum er hollt að prófa að flytja til annars lands, í annað umhverfi og þetta var okkar tækifæri til þess. Tímasetningin hentaði okkur vel þar sem við áttum von á okkar öðru barni svo konan mín gat verið í fæðingarorlofi á meðan ég stundaði námið,” segir Björgvin, en konan hans, Inga, var sú sem hvatti hann til að láta loksins verða af þessu. Björgvin spjallaði einnig oft við Didda píanóstillara, en leiðir þeirra lágu stundum saman í tónleikahúsum og hljóðverum þegar hann var að stilla. „Hann hvatti mig líka til þess að demba mér út í þetta enda mjög mikið að gera í þessu fyrir þá örfáu sem sinntu þessu á Íslandi.”

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Auðvelt að aðlagast
Með hjálp góðra vina, sem ferjuðu allar nauðsynjar í stórum ferðatöskum yfir til Bandaríkjanna, kom Björgvin sér fyrir í Boston. „Inga kom með krakkana í nóvember eftir að hafa komið nýjasta fjölskyldumeðlimnum í heiminn. Við ákváðum að það yrði gert á Íslandi þar sem kostnaðurinn við slíkt í Bandaríkjunum getur verið töluverður.” Fjölskyldan var fljót að aðlagast nýja umhverfinu og Þorbjörg Eiríka, fimm ára, orðin altalandi á ensku eftir aðeins nokkrar vikur í nýja, kaþólska skólanum. „Það var mjög dýrmætt fyrir hana að fara í skóla hérna þó hún hafi auðvitað saknað vina sinna úr leikskólanum heima. Hérna er lítið um þessa stemningu að leika saman eftir skóla eins og á Íslandi svo hún lék sér mikið ein og var glöð með að fara heim til Íslands að útskrifast úr leikskólanum með sínum árgangi.”

Stillingar langstærsti hlutinn
Á hefðbundnum skóladegi verja nemendurnar fyrsta klukkutímanum í að stilla hljóðfærið, næst fá þeir fyrirlestur frá kennurunum um einhvern hluta starfsins eða þeir kenna nemendunum viðgerðir. Námið segir Björgvin mjög fjölbreytt og magnað hversu margar leiðir sé hægt að fara í þessum bransa í Bandaríkjunum. „Aðalinnkoma okkar flestra eftir nám verða samt stillingarnar og það er langstærsti hluti námsins,” segir hann.

Boston lík Bítlabænum
Boston er að mörgu leyti lík evrópskum borgum að sögn Björgvins svo fjölskyldan upplifði ekki mikið menningarsjokk eftir flutningana út. „Það er samt mikill munur á hverfunum í Boston. Við búum í North End sem er ítalskt hverfi og hér heyrir maður ítölsku talaða í hverju horni eða ensku með þykkum ítölskum hreim. Þar sem við búum er frekar lágreist og fá hús hærri en fimm hæðir svo stemningin er svipuð og heima í Keflavík þegar maður gengur um göturnar. Fólk kallast á, þekkir hvert annað úr hverfinu og hér verður aldrei einhver mannmergð,” segir Björgvin en allt það helsta í bænum er í göngufæri frá íbúðinni þeirra.

Stanslaus gestagangur og spark í bolta
Dagur fjölskyldunnar í Boston hefst snemma en skóli Þorbjargar Eiríku er staðsettur á besta stað í bænum, beint á móti húsi fjölskyldunnar, svo ekki er langt að fara. „Eftir að ég hef fylgt henni í skólann labba ég í skólann minn en hann er ekki nema um tvö hundruð metrum neðar í götunni. Við völdum að vera frekar nær skólanum upp á að þurfa ekki að eyða einum til tveimur klukkutímum á dag í samgöngur þó það sé dýrara.” Þar sem fjölskyldan býr í ítölsku hverfi er erfitt að finna lélegan pizzastað í nágrenninu og er venjan hjá þeim í hádeginu á föstudögum að hittast á einum slíkum. „Yfirleitt er borðað úti ef það eru gestir hjá okkur en hér hefur verið stanslaus gestagangur alveg síðan við fluttum þannig það mætti flokka það sem hefðbundinn dag.” Um helgar er svo horft á enska boltann og rölt niður í bæ í góða veðrinu. „Þorbjörg hefur sótt fótboltaæfingar í kirkju niðri í bæ, já, í kirkju, og svo er stutt lestarferð yfir í Assembly Row, sem er verslunarkjarni með flottum outlets og veitingastöðum sem við sækjum oft.”

Ræturnar í Keflavík
Fjölskyldan mun flytja aftur heim til Íslands í byrjun júní og eina sem ákveðið er eftir það er að fara beinustu leið til Rússlands að fylgjast með íslenska landsliðinu á HM. „Ég ætla til að byrja með að stilla píanó í hlutastarfi en svo sjáum við bara til hvað gerist. Við eigum hús og fyrirtæki í Keflavík og ég sé okkur ekki flytja þaðan nokkurn tímann því þar eigum við okkar rætur. Allavega ekki á Íslandi en ef eitthvað tækifæri býðst erlendis er ekkert útilokað.”