Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þessar hljómsveitir verða á ATP hátíðinni
Föstudagur 2. maí 2014 kl. 11:00

Þessar hljómsveitir verða á ATP hátíðinni

sem haldin verður á Ásbrú í sumar.

ATP hátíðin á Íslandi hefur nú opinberað heildarlista yfir hvaða hljómsveitir og listamenn það eru sem munu koma fram á Ásbrú í sumar, annað árið sem hátíðin fer fram hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsvarsmönnum hátíðarinnar.

Hljómsveitirnar eru Mogwai, Slowdive, Shellac, Low, Devendra Banhart (sóló), Liars, Loop, I Break Horses, Pharmakon, Ben Frost, HAM, Sin Fang, Pascal Pinon og Fufanu bætast í hóp með Portishead, Interpol, Swans, Kurt Vile & The Violators, Fuck Buttons, Samaris, Sóley, Low Roar, Mammút o.fl.

Eftir að hátíðin lak dularfullri mynd af hljómsveit í Bláa lóninu í fyrradag mynduðst miklar vangaveltur á samfélagsmiðlum um hvaða hljómsveit væri átt við. Nú er ljóst að um er að ræða hljómsveitina Shellac með Steve Albini í fararbroddi, en sveitin hefur ekki spilað hér á landi síðan árið 1999. Þeir bætast í hópinn ásamt bandarísku goðsögnunum í Low, hljómsveitinni LIARS sem margir hafa beðið með eftirvæntingu að fá að sjá á sviði, hinni draumkenndu hávaðasveit Slowdive sem loksins kom saman aftur fyrr á árinu, þjóðlaga-sýrukonungnum Devendra Banhart og Skotunum í Mogwai sem nýverið sendu frá sér frábæra plötu.

Íslenskir listamenn sem bætast við eru Ben Frost, Pascal Pinon, Sin Fang, HAM og Fufanu (áður Captain Fufanu).

Þegar hafa sveitirnar Portishead, Interpol, Swans, Kurt Vile & The Violators, Fuck Buttons, Eaux, Forest Swords, Samaris, Low Roar, For A Minor Reflection, Sóley og Mammút verið tilkynntar og munu koma fram hátíðardagana 10. - 12. júlí, auk Neil Young & Crazy Horse  í Laugardalshöll þann 7. júlí.

Barry Hogan, stofnandi ATP segir: “Við erum gríðarspennt að geta tilkynnt nokkrar af okkar uppáhalds hljómsveitum sem margar hverjar munu koma fram á Íslandi í fyrsta sinn. Þetta er einungis annað árið okkar, en engu að síður eru þarna ekta ATP hljómsveitir á borð við Mogwai og Shellac auk hljómsveita sem hafa haft mikil áhrif á okkur líkt og Loop og Low. Við elskum Ísland og getum ekki beðið eftir að snúa aftur til að deila þessum frábæru hljómsveitum og einstaka umhverfi með ykkur.”

Þó svo að heildarlisti hljómsveita sé nú tilbúinn eru ýmsar spennandi tilkynningar eftir, til að mynda hverjir munu koma til með að stjórna kvikmyndavali hátíðarinnar í ár auk hvaða veitingar það eru sem verða á boðstólum á Ásbrú í júlí.

Hátíðarmiðar auk gistingar seldust upp snemma og hefur ATP nú bætt við auka gistiplássi á hátíðarsvæðinu til að anna eftirspurn.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024