Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þemadögum slúttað með rjómatertukasti
Þriðjudagur 4. mars 2003 kl. 10:22

Þemadögum slúttað með rjómatertukasti

Þemadagar Fjölbrautaskóla Suðurnesja voru haldnir í síðustu viku þar sem þemað var Suðurnesin. Nemendur skiptu sér upp í hópa af ýmsu tagi og var margt í boði fyrir nemendur skólans. Á föstudeginum var svo haldið „karnival“ í Reykjaneshöllinni þar sem afrakstur allra hópanna var sýndur.Í Reykjaneshöllinni spilaði m.a. hljómsveit úr skólanum frumsamið lag, farið var í limbókeppni, kennarar tóku þátt í kappáti og margt fleira. Hápunktur dagsins var þó án efa þegar boðnar voru upp rjómakökur til að kasta í andlit Ólafs Arnbjörnssonar skólameistara FS. Hefði maður nú haldið að nemendur hefðu gert allt sem í þeirra valdi stæði til að tryggja sér rjómatertuna en svo var aldeilis ekki. Sumarrós Sigurðardóttir dönskukennari átti hæsta boðið, upp á 4500 kr. og fékk hún því að kasta rjómakökunni í Ólaf. Spurning hvort um hafi verið að ræða áður útkljáð mál skal ósagt látið en greinilegt var á Rósu að henni þótti þetta alls ekki leiðinlegt. Þess má geta að sú peningaupphæð sem fékkst fyrir rjómakökuna var notuð til að styrkja íþróttafélagið NES.
Mynd: Ólafur Jón Arnbjörnsson fékk að kenna á því frá Rósu dönskukennara. VF-mynd: SævarS
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024