Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þekkir alla flugvelli á landinu
Þröstur Söring, framkvæmdastjóri Keflavíkurflugvallar.
Sunnudagur 2. mars 2014 kl. 09:00

Þekkir alla flugvelli á landinu

- Nýr framkvæmdastjóri Keflavíkurflugvallar.

„Ég var með afbragðsgóðan yfirmann, Ómar Sveinsson, sem ég lærði vel af. Hann hélt í höndina á mér á meðan ég steig mín fyrstu skref, frá maí og þar til hann lést í desember. Ég er því með gott veganesti, segir Þröstur Valmundsson Söring, nýráðinn framkvæmdastjóri Keflavíkurflugvallar. Hann hefur starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri sviðsins síðan í maí í fyrra. Fram að því starfaði Þröstur hjá Flugmálastjórn Íslands.

Traust og gott samstarfsfólk
Starf Þrastar felst í að reka flugvallaþjónustu, slökkvilið, snjóruðning og allt viðhald, fyrir utan Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Tæplega 80 manns starfa undir hans stjórn, fyrir utan verktaka. Skrifstofa Þrastar er í húsnæði slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli. „Sem drengur ætlaði ég fyrst að verða slökkviliðsmaður, síðan smiður og er núna lærður smiður og tæknifræðingur,“ segir Þröstur og bætir við að öll svona grunnþekking nýtist mjög vel, sérstaklega iðnmenntun. „Margir iðnaðarmenn starfa hérna og það er gott að hafa smá innsýn inn í þeirra störf. Tala sama mál og þeir.“ Hann segir einnig margt gott fólk vinna með sér í flugstöðinni, bæði fólkið í yfirstjórninni og á gólfinu. „Það gerir manni lífið miklu auðveldara og það munar öllu þegar maður er í stjórnandastöðu að hafa fólk í vinnu sem maður treystir. Maður drepur niður allan starfsanda og sköpunargleði ef maður er horfandi yfir öxlina á fólki,“ segir Þröstur með áherslu.  

Allir flugvellir hafa sín sérkenni
Þröstur hefur heimsótt alla flugvelli á landinu mörgum sinnum og þekkir þá mjög vel, sem og fólkið sem vinnur þar líka. Uppáhaldsflugvöllur er Keflavíkurflugvöllur, enda sá langstærsti á Íslandi og saga hans er löng og merk. „Ef maður hefur löngun til að vinna á flugvelli þá er þetta aðalvöllurinn. Langmest samskipti við erlenda aðila sem gera miklar kröfur. Stundum er sagt á meðal þeirra sem eru í þessum flugvallabransa að ef þú þekkir einn flugvöll, þá þekkirðu einn flugvöll.“ Allir flugvellir hafi sín sérkenni. Flugvöllurinn á Gjögri þjóni t.d. 50 manna byggð en hafi ákveðinn sjarma og hlutverk. „Þar er áætlunarflug og í augum íbúanna er flugvöllurinn gríðarlega stór og mikilvægur af því hann er þeirra líflína vegna slæmra samgangna á veturna,“ segir Þröstur.

Kominn aftur heim
Þröstur flutti með fjölskyldu sinni til Reykjanesbæjar í september og er Keflvíkingur sjálfur. Hann segir tímasetninguna hafa hentað mjög vel. „Yngsti sonurinn var akkurat að hefja grunnskólanám og næstyngsti að hefja nám í framhaldsskóla svo að það hitti vel á. Ég sagði bara við konuna mína: Annað hvort flytjum við núna eða bara ekki. Og við sjáum ekki eftir því.“ Sjálfur futti Þröstur til Reykjavíkur fyrir 25 árum og er því kominn aftur heim. „Bærinn er allur miklu skemmtilegri og áferðarbetri en hann var á sínum tíma,“ segir Þröstur, sem hlakkar til að takast á við nýtt starf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024