Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 25. september 2001 kl. 09:35

Þarf að bæta við starfsfólki á Byggðasafni Suðurnesja

Undanfarin ár hafa verið góð fyrir Byggðasafn Suðurnesja að sögn Sigrúnar Ástu Jónsdóttur, forstöðumanns Byggðasafns Suðurnesja. Hún segir að sú ákvörðun bæjarstjórnar að nýta Duus-húsin fyrir menningarstarf, hafi verið jákvæð.
„Við stefnum á að opna þar fyrstu sýningu safnsins næsta vor. Ýmislegt hefur einnig verið að gerast í innra starfi safnsins. Með aðkomu atvinnuleysistryggingasjóðs hefur tekist að koma skráningu mynda og muna á gott skrið. Eftir áramót höldum við áfram þessu starfi og er fyrirhugað að taka mikilvægt skref í skráningu myndasafnins og nú með því að færa það í gagnagrunn. Skráning safnkostsins á tölvutækt form er lykilatriði að allri starfsemi safna í dag og frumforsenda þess að safnið geti veitt vandaða þjónustu“, segir Sigrún Ásta.
Að mati Sigrúnar Ástu þarf aukin starfsemi Byggðasafnsins ekki bara að merkja aukin útgjöld fyrir bæjarsjóð, þar sem safnið hefur dregið fjármagn til bæjarins sem annars hefði ekki fengist. „Það er hins vegar ljóst að ef safnið á að vera samkeppnisfært þá verður að styrkja rekstrargrundvöll þess og tryggja því lágmarks starfsmannafjölda. Sambærileg söfn t.d. í Hafnarfirði og á Akureyri eru með 3 til 4 fastráðna starfsmenn auk gæslufólks og ræstingar.“
Starfsemi safnsins var með hefðbundum hætti í sumar, opið var alla sunnudaga eftir hádegi og í júlí og ágúst var opið alla virka daga eftir hádegi. Fjöldi gesta var svipaður og í fyrra. Í haust tók safnið þátt í Ljósanótt og þá komu á annað þúsund manns á sýningar safnsins í Duus húsunum og í Vatnsnesi.
Vinna við stefnumörkun fyrir Byggðasafnið er hafin og mun hún taka mið að almennri stefnumótun í menningarmálum Reykjanesbæjar sem tengist uppbyggingu menningarhúsnæðis bæjarins. Hlutverk Byggðasafnsins í bæjarfélaginu er að varðveita, rannsaka og miðla menningararfleið bæjarins til bæjarbúa og gesta bæjarins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024