Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þakkir til þeirra sem hjálpuðu okkur að roðagylla heiminn
Fimmtudagur 10. desember 2020 kl. 10:43

Þakkir til þeirra sem hjálpuðu okkur að roðagylla heiminn

Í dag 10. desember, á alþjóða mannréttindadaginn og degi Soroptimista, lýkur 16 daga átaki sem á heimsvísu gengur undir nafninu Orange the world. Frá 25. nóvember ár hvert hvetja manréttinda- og félagasamtök um allan heim fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga til að nota appelsínugulan lit til þess að vekja athygli á og berjast gegn kynbundnu ofbeldi en dagurinn er einmitt baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Á Íslandi hefur átakið fengið það fallega nafn Roðagyllum heiminn en appelsínugulur litur táknar bjarta framtíð án ofbeldis.

Þegar ég var nýorðin móðir voru reglulegar ferðir með barnið til barnalæknis í skoðun hluti af umhyggjunni fyrir því. Í einni heimsókninni fannst mér læknirinn full aðgangsharður við okkur foreldrana og þráspurði um marbletti á líkama barnsins. Mér leið alls ekki vel með þetta og fannst læknirinn vera að saka mig um að beita barnið mitt ofbeldi. Ég áttaði mig hins vegar á því seinna að það var einungis umhyggja fyrir barninu sem vakti fyrir lækninum, enda fór málið aldrei neitt lengra, en „barnið“ mitt er enn með marbletti enda annáluð Hrakfallabína.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Höfum einmitt umhyggjuna að leiðarljósi, veitum því athygli ef okkur finnst hlutirnir ekki vera í lagi og manneskja í okkar umhverfi virðist þjökuð. Stöndum saman í að passa hvert annað og rétta hjálparhönd þeim sem við getum hjálpað, án þess að vera með ásakanir eða draga óþarfa ályktanir. Það hefur aldrei verið jafn aðkallandi og nú að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi. Á hamfaratímum eykst ofbeldi gjarnan og því miður höfum við fengið fregnir af því nú í Covid-19 heimsfaraldrinum.

Samstaðan hefur vakið athygli

Systur í Soroptimistaklúbbi Keflavíkur eru að taka þátt í Roðagyllingu heimsins í annað sinn. Frá upphafi hefur klúbburinn notið mikillar velvildar forsvarsmanna fyrirtækja og stofnana á Suðurnesjum sem hafa sýnt verkefninu stuðning með því að roðagylla byggingar. Það hefur þótt eftirtektarvert innan Soroptimistahreyfingarinnar hversu mikil samstaða hefur verið á svæðinu. Við vonum einnig að almenningur hafi veitt appelsínugulum ljósum athygli og svo sannarlega vonum við að enn fleiri bætist í lestina á næstu árum og hjálpi okkur að roðagylla heiminn enn betur. Þakkir sendi ég forsvarsmönnum fyrirtækja og stofnana á Suðurnesjum sem tóku þátt.

Í ár fórum við einnig nýjar leiðir og framleiddum appelsínugular sápur í samstarfi við Ólaf Árna Haraldsson í Sápunni sem gaf klúbbnum uppskrift, lánaði tæki og tól og gaf alla sínu vinnu. Kærar þakkir Ólafur. Sápurnar eru ekki bara fallega appelsínugular og vegan, heldur hafa þær appelsínuangan. Þær verða áfram til sölu hjá Fjólu gullsmið og í Reykjanesapóteki á meðan birgðir endast en ágóðinn af sölunni verður nýttur til að bæta hag kvenna og stúlkna, sem oftast eru þolendur kynbundins ofbeldis.

Sigurjón Héðinsson bakari þurfti heldur ekki að hugsa sig tvisvar um þegar hann var beðinn um að skreyta snúða og kleinuhringi með appelsínugulu kremi þessa 16 daga, sem fengu nafnið mannúðar-snúðar og kærleiks-kleinuhringir. Hann stökk strax á vagninn og ætlar að láta ágóðann af sölunni renna til Velferðarsjóðs Suðurnesja. Hann ætlar einnig að bæta um betur og hafa appelsínugula snúða og kleinuhringi áfram til sölu, enda einstaklega bragðgóðir og skemmtileg tilbreyting. Takk Sigurjón.

Þeir félagar á Víkurfréttum héldu svo utan um allt saman, mættu áhugasamir á staðina með myndavélar og hljóðnema og gerðu framleiðslunni og átakinu góð skil í vikublöðum sínum og sjónvarpsþáttum, sem einnig eru sýndir á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Bestu þakkir Páll og Hilmar Bragi.

Þakkir sendi ég ekki síður til systra minna í Soroptimistaklúbbi Keflavíkur sem hafa sinnt verkefninu af alúð.

Megi aðventan og jólahátíðin fylla okkur von um bjartari tíma fyrir okkur öll.

Svanhildur Eiríksdóttir
formaður Soroptimstaklúbbs Keflavíkur