Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þakkir frá geðveiku kaffihúsi
Mánudagur 23. apríl 2012 kl. 09:33

Þakkir frá geðveiku kaffihúsi

List án landamæra á Suðurnesjum þakkar bæjarbúum frábærar móttökur og veittan stuðning á Geðveiku kaffihúsi sem fram fór í Svarta pakkhúsinu í gær. Óhætt er að segja að þátttakan hafi farið fram úr björtustu vonum skipuleggjenda enda var kaffihúsið þétt setið allan opnunartímann og mikil gleði við völd á þessum fyrsta degi sumars sem skartaði sínu fegursta af því tilefni.


Ýmsar skemmtilegar uppákomur litu dagsins ljós í gær. Félagar úr Björginni, geðræktarmiðstöð, fluttu ljóð sem hrifu nærstadda með einlægni sinni. Þá var flutt brot úr leikverki sem leikhópur Listar án landamæra er nú að æfa fyrir sviðsskemmtun sem haldin verður 5. og 6. maí í Frumleikhúsinu og ljóst að þar er á ferðinni nokkuð sem enginn má láta framhjá sér fara. Þá kom fram hljómsveitin Eldar sem einnig heillaði áheyrendur með sinni angurværu tónlist í flutningi Valdimars Guðmundssonar og Björgvins Ívars Baldurssonar.


Það var Björgin sem stóð fyrir kaffihúsinu og glæsilegum veitingum en þátttakendur komu þó víðar að m.a. frá Hæfingarstöðinni, Miðstöð Símenntunar og Reykjanesbæ auk einstaklinga sem m.a. seldu listaverk og handverk. Saman sköpuðu þau þetta skemmtilega kaffihús sem vonandi verður að árlegum viðburði héðan í frá. Það er ekki sjálfgefið mál að hópar eins og Björgin og Hæfingarstöðin hrindi af stað verkefnum sem þessum og setji sjálfa sig í forgrunn með þeim hætti sem hér var gert og því er óhætt að óska þeim til hamingju með frábært framtak og frammistöðu.


Það eru Sveitarfélögin á Suðurnesjum sem í sameiningu standa fyrir verkefninu List án landamæra á Suðurnesjum með styrk frá menningarsjóði Suðurnesja.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024