Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Það skapar ekki líf að byggja háhýsi
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 3. nóvember 2019 kl. 07:40

Það skapar ekki líf að byggja háhýsi

Kannski eru einhverjir bæjarbúar Reykjanesbæjar orðnir hundleiðir á því að alltaf sé verið að spara og spara til að borga niður skuldir bæjarins? Getur það verið að á meðan bæjaryfirvöld hafa verið að borga niður skuldir í nokkur ár, þá hafi menningarstig bæjarins koðnað niður?
Eru bæjaryfirvöld ábyrg fyrir því hvernig bæjarmenning þróast? Eiga ekki íbúarnir sjálfir að sjá um að efla menningu án aðstoðar yfirvalda?  

Kvartað er um dauðan miðbæ Keflavíkur, að kaffihús þrífist ekki, of fáa viðburði sem lokki íbúa niður í bæ og þar fram eftir götunum. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ragnheiður Elín Árnadóttir drap niður penna varðandi þessi mál í sumar þegar hún tuðaði um þetta ástand í miðbænum. Ragnheiður Elín, eða Ragga Árna eins og margir Keflvíkingar þekkja hana, er pistlahöfundur Víkurfrétta og skrifar Lokaorð. Við spurðum hana nánar út í þetta og gefum henni orðið:

Líf í bæjum landið um kring

„Ég hef oft hugsað þetta í gegnum tíðina. Í sumar fór ég vítt og breitt um landið, til dæmis á Sauðárkrók, Siglufjörð, Stykkishólm og fleiri litla staði og alls staðar var iðandi mannlíf þar sem fólk var á ferli, sat úti á veitingaastöðum og naut veðurblíðunnar saman. Þetta voru ekki skipulagðar bæjarhátíðir, heldur var bara skemmtilegt mannlíf í bæjunum, kaffihús með stóla og borð utandyra, fólk að hittast og spjalla. Ég hugsaði með mér; „Af hverju er ekki svona mannlíf í miðbæ Keflavíkur á góðviðrisdögum? Af hverju förum við bæjarbúar ekki meira niður í bæ til að hitta mann og annan? Hvar er allt fólkið?“ Á Hafnargötunni eru einstaka túristar á ferli, gott og vel en hvers vegna ekki íbúarnir sjálfir? Í Reykjavík er í dag setið við hvert kaffihús þegar veðrið er gott en það var ekki endilega alltaf svoleiðis. Og talandi um veðrið, það er engin afsökun fyrir okkur hér, það er bara nákvæmlega eins hér og annars staðar – og veðrið var auðvitað dásamlegt í allt sumar.“ 

Vill bjarga menningarverðmætum frá glötun

„Ég er fædd og uppalin í Keflavík en flutti burt árið 1992 þegar ég fór til Bandaríkjanna í nám. Svo þegar ég flutti aftur til Reykjanesbæjar árið 2010 úr Garðabæ fannst mér ég koma heim í allt annan bæ. Þá var búið að fegra bæinn svo um munaði, efla skólastarf og fleira sem ýtti undir að við hjónin vildum flytja hingað suður. Ég hef alltaf gengið mikið en síðastliðin tvö ár hef ég gengið nánast daglega meðfram strandlengjunni sem liggur frá Grófinni upp á Stapa. Alveg stórkostleg gönguleið sem við íbúarnir erum dugleg að nýta okkur til útivistar. Ég hef oft hugsað til þess að það vanti skemmtilega áningarstaði á leiðinni þar sem hægt væri að setjast niður, til dæmis eins og maður gerir á Nauthóli á strandleið þeirra Reykvíkinga. Þegar ég geng fram hjá gömlu Sundhöllinni okkar niður við sjó þá græt ég örlög hennar í hvert sinn. Hún var í mínum huga þessi mögulegi áningarstaður – miðpunktur mannlífs og menningarsögu okkar. Hún stendur þó enn. „Það er ekki of seint að bjarga þessum menningarverðmætum úr sögu Keflavíkur,“ hugsa ég alltaf og dauðsé eftir því að hafa ekki keypt hana sjálf á sínum tíma eða fengið fjárfesta með mér í lið. Það var stór hópur Keflvíkinga og annarra sem vildi og reyndi eins og það gat að bjarga þessu sögufræga húsi frá glötun, húsi sem á sér ríka sögu í fortíð bæjarins og skipar stóran sess í sundsögu þjóðarinnar. Sagan á bakvið sundlaugina er saga af sönnum ungmennafélagsanda þar sem íbúarnir sjálfir, bæði byggðu og söfnuðu fjármagni fyrir lauginni, sagan er stórmerkileg. Ég hélt í einfeldni minni að okkur tækist að fá bæjaryfirvöld í lið með okkur, að þau bæru virðingu fyrir sögunni og fyrir þessu fallega húsi sem Guðjón Samúelsson, arkitekt, teiknaði á sínum tíma. Við í Hollvinasamtökunum sáum fyrir okkur nýtt hlutverk fyrir húsið, baðhús með útisvæði sem tengst gæti sjónum fyrir neðan svo fólk gæti notið sjávarútsýnis úr lauginni. Óteljandi hugmyndir fóru á flug. 

Sjáðu hversu vel hefur tekist til með Sundhöll Reykjavíkur sem einnig var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni og er í sömu seríu og okkar gamla sundlaug. Þar var ráðist í gagngerar endurbætur og hún iðar af mannlífi. Ég tók eftir því að á nýliðinni RIFF-kvikmyndahátíð var bíósýning í lauginni. Í Sundhöll Hafnarfjarðar, sem er önnur úr sömu seríu, sá ég að fyrir nokkrum vikum var þar haldin stór snyrtivörukynning og mikill fagnaður. En hér bíður Sundhöll Keflavíkur örlaga sinna því eigendur þess ætla að byggja háhýsi á lóðinni og þar með jafna við jörðu þetta sögufræga hús. Þetta er gamaldags, skammsýn hugsun. Svona gerðu menn hér áður fyrr í gömlu Keflavík og dauðsjá eftir því í dag. Þá voru mörg gömul hús hreinsuð burt, hús sem hefðu getað prýtt bæinn okkar enn í dag og verið kennileiti bæjarins. Við eigum að læra af reynslunni og af því sem gert hefur verið annars staðar. Sjáðu til dæmis muninn á uppbyggingu Skuggahverfisins í Reykjavík með líflausum háhýsum, þar sem enginn er á ferli og berðu það svo saman við uppbygginguna á Grandanum, þar sem gömlu og nýju er blandað saman og myndar líflega heild. Hér í Reykjanesbæ á því miður, með blessun bæjaryfirvalda, að byggja endalausa einsleita háhýsabyggð meðfram strandlengjunni og loka á útsýnið fyrir almenning. Það skapar ekki líf að byggja háhýsi, það skapar vindhviður,“ segir Ragga og liggur ekki á skoðun sinni. 

Hvers vegna er ekki meira líf í miðbænum?

„Við viljum fá fólk í bæinn okkar, við viljum fjölbreytt mannlíf. Við viljum sjálf geta notið þess og við viljum einnig fá ferðafólk, erlent sem innlent, til okkar í heimsókn. Þá verðum við að hafa eitthvað aðdráttarafl, eitthvað sem lokkar fólk hingað suður með sjó. Mér finnst okkur vanta sérstöðu og stundum meiri metnað. Við búum í miðri matarkistu og eigum að nýta okkur það til hins ítrasta. Sjáðu hvað litlu bæirnir Stokkseyri og Eyrarbakki hafa gert til þess að laða fólk til sín. Ég geri mér spes ferðir þangað til að fá mér humar og humarsúpu á fyrsta flokks veitingastöðum í gömlum vel hirtum húsum. Talandi aftur um strandleiðina okkar, þar eru gömul verkstæði, ónotaðir skúrar og frystihús sem væri svo gaman að sjá í fjölbreyttri notkun. Það mætti mála og fegra umhverfið og húsin við strandlengjuna, setja út borð og stóla, já og teppi ef með þarf! Fólk sækir í svona upplifun, við sátum til dæmis undir teppi við höfnina í Stykkishólmi og borðuðum súpu í sumar þegar ég var þar,“ segir hún með sannfæringarkrafti.

Bæjaryfirvöld gætu gert meira

Maður skynjar það glöggt að Keflvíkingurinn er með margar góðar hugmyndir varðandi framtíð bæjarins. Henni stendur ekki á sama hvernig hlutirnir þróast.

„Ég held það sé hægt að gera miklu meira í markaðssetningu bæjarins út á við, leggja áherslu á það jákvæða og skapa meira líf sem gerir bæinn skemmtilegri og meira aðlaðandi. Það gerir þetta engin einn og við íbúar þurfum að vera með. Það þarf að virkja fyrirtækjaeigendur og áhugasamt fólk sem langar að efla mannlífið í Reykjanesbæ. Mér finnst aðdáunarvert hvað það eru margar rótgrónar verslanir sem hafa verið reknar í fjölda ára til dæmis við Hafnargötuna. Það skiptir máli að styðja þessar verslanir og versla við þær, annars þrífast þær ekki. Við þurfum öll að líta í eigin barm og leggja okkar af mörkum. Bæjaryfirvöld gætu líka gert miklu meira í þessu samhengi, tekið frumkvæði, virkjað íbúana með sér, startað einhverju í samráði við verslanir og bæjarbúa. Við erum stærsti bærinn á Suðurnesjum, við eigum að taka forystu, gera eitthvað til þess að laða fólk í miðbæinn og gesti frá nærliggjandi bæjum til að gera sér dagamun. Það þarf ekki allt að vera á Ljósanæturskalanum en bæjaryfirvöld gætu byrjað samtalið og virkjað íbúa til samstarfs og kallað eftir hugmyndum. Það þarf einhver að taka frumkvæðið.“ 

Verndun menningarminja skiptir máli

„Endurbætur á gamla bænum í Keflavík á sínum tíma tókust vel, elsta hlutanum hefur verið sinnt ágætlega og svæðinu í kringum Duus húsin. Í dag er gamli bærinn hluti af menningarverðmætum bæjarins sem engum dytti í hug að hrófla við og er sá bæjarhluti sem laðar til sín gesti. Verndun menningarminja skiptir miklu máli og gerir bæ að bæ. Hvað skoðum við fyrst þegar við komum á nýja staði – gömlu hverfin, söguna. Ekki nýju blokkirnar. Það er búið að gera upp Fischershús og Gömlubúð sem er frábært en það vantar að klára verkefnið og finna þessum húsum verðugt hlutverk. Af hverju er þetta fallega, nýuppgerða hús notað undir skrifstofur bæjarins? Af hverju fékk Gamlabúð ekki skemmtilegra hlutverk sem dregur að sér gesti og almenningur getur notið í leiðinni?“ spyr Ragnheiður Elín Árnadóttir og bætir við: „Og það er mikilvægt að passa upp á næstu kynslóð húsagerðar og menningarsögu okkar og að það verði ekki rof í sögunni. Sundhöllin, svo ég nefni hana enn á ný, nær væntanlega ekki 100 ára aldri sem þarf til að fá sjálfvirka friðun og svo er einnig um fleiri hús hér í bæ. Það vantar heildstæða stefnu og hugsun í þetta áður en allt gamalt verður rifið og ný einsleit byggð rís. Við þurfum að huga að því að varðveita sum skrýtnu, gömlu húsin við Hafnargötuna og leggja rækt við þau. Gamla Hagafellshúsið, sem er það fyrsta sem blasir við öllum sem koma inn í miðbæinn okkar, er algjörlega til skammar og það þarf að skikka eigendur þess að laga það eða beita þá sektum. Hið sama á reyndar við um hús í eigu bæjarins, gamli Vatnsnesbærinn er farinn að láta mikið á sjá en bærinn fékk húsið á sínum tíma að gjöf. Af hverju er þessu fallega húsi ekki haldið betur við og því fundið verðugt hlutverk?“
„Úr einu í annað – það þarf líka að huga að mannlífinu í fleiri hverfum bæjarins. Sjáðu hvað Kaffi Vest í vesturbæ Reykjavíkur er búið að gera fyrir Vesturbæinn. Þarna var ekkert kaffihús áður en með réttri hugmynd og stemningu á meðal íbúa hverfisins tókst að búa til vinsælt kaffihús sem er orðið hringamiðja hverfisins. Afhverju ætti þetta ekki líka að geta gengið hér? Og þá er ég líka að hugsa um nýju hverfin okkar þar sem íbúum hefur fjölgað svo um munar. Væri grundvöllur fyrir kaffihúsi á Ásbrú eða í Innri Njarðvík? Hvað til dæmis með Víkingaheima – væri það annar vænlegur áfangastaður á strandleiðinni? Og talandi um það svæði, af hverju er búið að loka húsdýragarðinum við Víkingaheima? Kostar það virkilega of mikið að reka svona starfsemi í nokkrar vikur á sumri?

Við höfum upp á svo margt að bjóða hér á svæðinu þannig að ég er sannfærð um að það er hægt að gera svo miklu betur. Bærinn er frábærlega staðsettur. Hér er gróska í tónlistarlífinu og allir innviðir til staðar til þess að við ættum að geta lokkað fleira fólk hingað sem langar í tilbreytingu og dægrastyttingu. Við íbúarnir þurfum líka að taka þátt, það gerir þetta engin einn. Það þarf samstillt átak og plan – hver ætlar að byrja?“ spyr Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi ráðherra, Keflvíkingurinn, konan sem er hætt öllum afskiptum af pólítík. En það er ekki þar með sagt að hún sé skoðanalaus. Ó, ne! Það kviknar í manni við að hlusta á hana, drifkraftinn sem geislar frá henni og næst er að vita hvað hún sé að fást við þessa dagana.

Er í nýju spennandi starfi

„Í dag er ég verkefnastjóri fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin, „evrópska Óskarinn“, en þau verða afhent á Íslandi 12.12.2020 eða í lok næsta árs. Þetta er stærðarinnar verkefni en hátíðin er haldin annað hvert ár í Berlín og fer á flakk hitt árið. Þetta er samstarfsverkefni ríkis og borgar og ég vinn þetta í samvinnu við Evrópsku kvikmyndaakademíuna í Berlín. Ég held ein utan um þetta verkefni sem stendur en þegar nær dregur mun okkur fjölga. Sem dæmi um fyrri verðlaunahafa hátíðarinnar má nefna Pierce Brosnan, Sean Connery, Helen Mirren og Björk Guðmundsdóttur, sem fékk verðlaunin á sínum tíma fyrir Dancer in the Dark. Fjöldi Íslendinga hefur verið tilnefndur í gegnum tíðina, nú síðast í fyrra var Halldóra Geirharðsdóttir tilnefnd fyrir hlutverk sitt í Kona fer í stríð. Í ár er kvikmyndin Hvítur hvítur dagur í hópi þeirra 46 mynda sem akademían velur úr og fáum við að vita í nóvember hvort hún muni hljóta tilnefningu. Sú kvikmynd er mögnuð og vona ég innilega að hún verði tilnefnd til einhverra verðlauna. Þetta er stór viðburður sem á eftir að vekja athygli á heimsvísu,“ segir Ragga brött.

Einu sinni var hún ráðherra en er núna verkefnastjóri, hvernig finnst henni þetta nýja starf?

„Það er ótrúlega gaman að taka þátt í þessu verkefni. Ég er sem stendur allt í öllu og fékk þau fyrirmæli þegar ég fékk starfið að þetta ætti ekki að bara að vera ein helgi af hátíðarhöldum, heldur ætti allt árið að endurspegla evrópska kvikmyndagerð. Við ætlum okkur að láta almenning verða varan við okkur allt árið 2020 með ýmsum viðburðum. Hátíðin verður stór og skemmtilegur viðburður, því get ég lofað,“ segir Ragnheiður Elín sem hlýtur að njóta sín í botn í þessu verkefni enda leynist í henni frumkvöðull.