Það kemur alveg fyrir að fólk segi að ég sé fyndinn
Elías Örn Friðfinnsson er 23 ára Keflvíkingur sem býr í vesturbæ Reykjavíkur. Hann starfar sem kokkur á Rauða Ljóninu og í frítíma sínum fæst hann við uppistand og vinnur að skopteikningum sem hann ætlar að gefa út í nánustu framtíð. Hann verður einn af keppendum í Fyndnasta manni Íslands sem er að fara af stað eftir töluvert hlé.
Hvernig datt þér í hug að taka þátt í keppninni um fyndnasta mann Íslands?
„Ég sá þetta á facebook og tók eftir því að Óskar Pétur Sævarsson væri að taka þátt, ég hugsaði þá með mér að fyrst að hann getur það, þá get ég það alveg. Mig langaði að athuga hvort að þetta gæti ekki orðið smá stökkpallur í skemmtanaiðnaðinn á Íslandi, “ segir Elías sem að langar mikið til þess að starfa í gríni. „Ef maður gæti fengið borgað fyrir að vera í uppistandi, annars væri gaman að vinna í sjónvarpi.“
Nú stendur yfir undankeppni sem að felst að mestu leiti í því að þeir sem ætla sér að taka þátt keppast um að fá sem flest like á facebook, þeir 10 sem fá svo flest like komast beint í lokaúrslitin sem fara fram á Spot í Kópavogi.
En hvernig er uppistandsmarkaðurinn á Íslandi í dag?
„Það er ekki hægt að lifa á þessu, þú þarft alltaf að vera með eitthvað annað í gangi held ég en þó má hafa einhvern pening út úr þessu.“
Hvernig ertu búinn að undirbúa þig fyrir áheyrnarprufurnar?
„Það verður í raun erfitt að finna út úr því. Maður fær bara 3 mínútur til þess að heilla dómarana í prufunum.“ Elías hefur þó verið að flytja uppistand víða um nokkurt skeið og á því eitthvað að efni til á lager. „Mér finnst það alveg hellings vesen að finna hvað ég á að nota af efninu mínu, þetta er mjög stuttur tími. Ég er yfirleitt vanur því að segja sögur í langan tíma og kem svo húmornum inn í þessar sögur, það verður vesenið fyrir mig að stytta þetta niður. Ef maður fer svo yfir þessar 3 mínútur þá fær maður einhvern mínus, svo að maður verður að vera með þetta tímasett eins og í ræðukeppni.“
Ertu nógu fyndinn til þess að verða fyndnasti maður Íslands?
„Ekki spurning,“ segir Elías kokhraustur. „Það kemur alveg fyrir að fólk segi að ég sé fyndinn.“
Af hverju ætti fólk að styðja þig í keppninni?
„Af því að ég er ógeðslega frábær gæji,“ sagði Elías að lokum.
Keppnin fer fram á skemmtistanum Spot núna í byrjun nóvember og hægt er að styðja Elías með því að fara á facebook og á síðuna „Fyndnasti maður Íslands,“ finna þar Elías í dálkinum vinavirkni og gefa honum like.