Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Það eru þessir litlu hlutir sem skipta máli
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
laugardaginn 17. desember 2022 kl. 10:05

Það eru þessir litlu hlutir sem skipta máli

Það sem stóð upp úr árið 2022 hjá Heru er sumarfríið sem fjölskyldan átti saman en þau ferðuðust um Austurland með fellihýsi. Henni finnst heitt kakó, kertaljós, jólamynd, mandarínur og samverustundir með fjölskyldunni vera ómissandi í kringum jólahátíðina. 

Hvernig var árið 2022 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Þetta ár hefur verið mjög gott hjá okkur fjölskyldunni og það sem stóð upp úr var sumarfríið okkar saman. Við ferðuðumst um Austurland með fellihýsi sem var dásamleg upplifun. 

Ert þú mikið jólabarn?

Já, ég hef alltaf verið mikið jólabarn og það jókst bara eftir að ég eignaðist mín eigin börn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?

Það er yfirleitt sett upp fyrsta eða annan sunnudag í aðventu. 

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir - áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Ég get ómögulega munað eftir fyrstu jólunum en ég á margar góðar jólaminningar við að skreyta jólatréð og baka smákökur. Ég man líka hvað heimilið breyttist í hálfgjört jólahús þegar jólin nálguðust (og það er ennþá þannig þegar maður kemur heim til mömmu og pabba). 

En skemmtilegar jólahefðir?

Það eru jólaboðin á jóladag og annan í jólum, svo held ég að maður þurfi bara að fara búa til nýjar hefðir. 

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Ég er vanalega mjög skipulögð með gjafirnar en á það alveg til að geyma jafnvel eina gjöf þar til á Þorláksmessu. 

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Heitt kakó, kertaljós, jólamynd og mandarínur. 

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

Ég gleymi aldrei bleiku og svörtu Vans skónum sem ég fékk ein jólin. 

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Nei, það er ekkert sérstakt. Mér finnst samt alltaf gaman að fá einhvers konar upplifun í gjöf. 

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Já, við erum með rjúpur og það er hefð sem kemur frá manninum mínum… ég þurfti reyndar aðeins að venjast þessu fyrst en er komin á bragðið núna.  

Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?

Ég ætla á jólatónleika, sem mér finnst nauðsynlegt til þess að fá smá jólahlýju í hjartað og taka svo rölt í Aðventugarðinn og upplifa jólagleðina sem honum fylgir. Ég hlakka til þess að njóta með fjölskyldunni, samverustundirnar á jólunum gefa manni svo mikið, það eru þessir litlu hlutir sem skipta máli.