Það er komið sumar
Það er löng hefð fyrir því að skátar gangi fylktu liði undir þjóðfánanum á Sumardaginn fyrsta og var engin undantekning á því í dag. Þetta er mikill hátíðardagur hjá skátum sem ávallt eru áberandi í hátíðarhöldunum og gera sér glaðan dag.
Víða um land voru farnar skrúðgöngur í tilefni dagsins með skáta í fararbroddi. Hér í Reykjanesbæ gengu skátar úr Heiðabúum og aðrir bæjarbúar undir taktföstu hljómfalli Lúðrasveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eftir götum bæjarins og endaði gangan í Keflavíkurkirkju í skátamessu hjá séra Skúla S. Ólafssyni.
Það er eflaust mörgum ánægjuefni að síðasti vetrardagur og sumardagurinn frusu saman að þessu sinni en það veit á gott sumar samkvæmt gamalli trú. Ekki skal fjölyrt um það hér hversu áreiðanleg þau vísindi eru en bregðist þau getur maður alltjént átt sumar í huga sér, eins og séra Skúli kom inn á í ræðu sinni.
Víkurfréttir óska Suðurnesjamönnum öllum gleðilegs sumars.
VFmyndir/elg – Frá hátíðarhöldum dagsins.