Það er ekki nóg að dreyma um gott líf, maður verður að gera eitthvað!
- Viðtal við Heimskonuna Faribu Ayazi
Árið 2011 stofnaði Kolbrún Björk Sveinsdóttir, þáverandi starfsmaður Bókasafns Reykjanesbæjar, og Ko-Leen Berman hópinn Heimskonur. Hópurinn var stofnaður þegar Ko-Leen kom að máli við Kolbrúnu og sagði henni að nokkrar konur af erlendum uppruna hefðu áhuga á því að hittast og spjalla við aðrar konur í svipuðum sporum. Þannig fór boltinn að rúlla og nú hittast konur alls staðar að úr heiminum að jafnaði einu sinni í mánuði í Ráðhúskaffi, en það er í sama húsi og Bókasafn Reykjanesbæjar.
Heimskonan Fariba Ayazi hefur búið á Íslandi síðan 2012 en hún kom hingað til lands til að læra íslensku sem annað tungumál við Háskóla Íslands. Hún lauk diplómanámi í því en áður en hún kom hingað til lands lauk hún B.S gráðu í tölvunarfræði. Fariba flutti til Íslands frá Tehran, höfuðborg Íran. Fariba vann hjá stóru tæknifyrirtæki í Tehran og hafði það býsna gott. Hjá fyrirtækinu vann hún sig upp í yfirmannsstöðu og fékk m.a. tækifæri til að læra ensku og til að mennta sig í tölvunarfræði. Forvitni og ferðahugur Faribu urðu þó til þess að hún vatt kvæði sínu í kross og sótti um nám á Íslandi, ekki síst til að kynnast annarri menningu og allt öðru lífi en hennar eigin. Hún skellihlær þegar hún rifjar upp að hún hafi ekki einu sinni vitað að Ísland væri til þegar hún fór að kanna hvaða möguleikar væru í boði.
Hér eru Heimskonur á sjálfsvarnarnámskeiði.
Líf Faribu átti sannarlega eftir að breytast en þegar hún var í Háskóla Íslands kynntist hún eiginmanni sínum Artur Matusiak. Hann er pólskur og kom fyrst hingað til lands árið 2008. Þau hafa nú eignast þrjá drengi og keypt sér hús í Innri Njarðvík. Fariba segir það hafa verið örlögin sem leiddu hana hingað til kynnast honum. Fariba elskar lífið á Íslandi og er afar þakklát því að fá góðar móttökur hér á landi. ,,Hér eru allir svo afslappaðir og mér finnst alltaf allir hafa tekið vel á móti mér“ segir Fariba.
Fariba kynntist Heimskonum árið 2013 en hún sá auglýsingu á Facebook. Hún mætti á fund í Bókasafni Reykjanesbæjar og sér alls ekki eftir því. ,,Það er svo mikilvægt að hitta fólk í svipaðri stöðu og þú ert sjálfur í. Það að flytja til annars lands er ævintýralegt en það reynir líka mikið á, flestir upplifa söknuð, finnst þeir vera einangraðir á einhverjum tímapunkti, kunna ekki tungumálið, þekkja fáa og hér á landi er veðrið og myrkrið auðvitað mikil áskorun fyrir marga.“ Fariba segir það vera mjög mikilvægt að líta á björtu hliðarnar og að geta stappað stálinu hver í aðra.
Að tala um hlutina segir hún líka vera mjög mikilvægt í svona stöðu og losa um neikvæðni ef einhver er. Hún segir jákvæðni vera mjög mikilvæga í hópum sem þessum og að sýna stuðning. Heimskonur hittast til að ræða saman og skapa tengslanet sem er mjög mikilvægt, líka til að læra að sögn Faribu. ,,Ég vil t.d. geta hjálpað þeim sem vilja finna sína leið í lífinu, að finna sína ástríðu. Það er ekki nóg að dreyma um gott líf, maður verður að gera eitthvað!“ bætir hún við ákveðin.
Heimskonur hvíla sig í fjallgöngu á Þorbirni.
Einangrun er að sögn Faribu varasöm en hún segir það gjarnan vera þannig að konurnar séu heima og hugsi um börnin á meðan mennirnir eru oftast í vinnu og skapa þannig sitt tengslanet. Það er t.d. ein afar mikilvæg ástæða þess að hafa hópa eins og Heimskonur í boði. Hún segist hafa öðlast meira sjálfsöryggi við að fara í hópinn en þar hafi samræður um daglegt líf og áskoranir hjálpað mikið.
Þegar Fariba er spurð að því hver sé helsti munurinn á Íslandi og Íran hugsar hún sig ekki tvisvar um. ,,Frelsið!“ segir hún ákveðin. ,,Ef ég hefði farið að óskum fólksins í kringum mig heima í Íran hefði ég þurft að hætta að vinna og læra. Ég hefði þurft að vera heima og ég hefði tapað mínu frelsi og því sem ég var búin að vinna að frá 18 ára aldri.“ Fariba fer samt reglulega heim til Íran og heldur tengslunum við fjölskylduna sína sem hún saknar oft. Henni finnst mjög mikilvægt að varðveita menningararf þeirra hjóna og eru núna fjögur tungumál töluð á heimilinu; persneska, pólska, enska og íslenska.
Það er margt gott sem Fariba hefur kynnst á Íslandi og hún er sérlega hrifin af fisknum. ,,Ég borða nánast allan fisk núna, hann er svo góður hérna. Ég byrjaði líka að drekka kaffi þegar ég flutti til Íslands, mér finnst það mjög gott“ segir hin lífsglaða og brosmilda Fariba.
Heimskonur hittast fyrsta laugardag hvers mánaðar klukkan 12.00 í Ráðhúskaffi. Allar konur eru velkomnar sem vilja víkka sjóndeildarhringinn sinn, mögulega láta gott af sér leiða, þær sem vilja finna stuðning og umfram allt fyrir allar konur sem vilja eiga ánægjulega samverustund.