„Það er allt við fimleikana sem ég elska!“
Heiðrún Rós Þórðardóttir er 25 ára fimleikaiðkandi í Keflavík. Hún hefur æft fimleika í 14 ár en hún byrjaði 6 ára. 18 ára ákvað hún að hætta en sá rosalega eftir því og byrjaði svo aftur að æfa af fullum krafti fyrir tæpum tveimur árum. Heiðrún er ákveðin í að halda áfram að æfa fimleika, þrátt fyrir frekar háan fimleikaaldur og stefnir nú á að fara til Danmerkur í eitt ár í fimleikaskóla. „Ég ætla mér að æfa svo lengi sem ég tek framförum og líkaminn er í lagi.”
Heiðrún Rós er í sambúð með kærasta sínum, Axel Þór. Hún vinnur á leikskólanum Vesturbergi og þjálfar fimleika með því. Hún útskrifaðist með Bs‘c í íþróttafræðum frá Háskólanum í Reykjavík í fyrra.
Framfarir í nýju fimleikahúsi
Núna nýlega var opnað nýtt fimleikahús og Heiðrúnu finnst húsið æðislegt. „Það er þvílíkur munur að þurfa ekki að eyða tæpum klukkutíma af æfingatíma okkar í það að taka út áhöld og ganga frá þeim. Við höfum líka strax orðið vör við miklar framfarir síðan við fengum nýju aðstöðuna. Aðstaðan okkar er núna sú besta á landinu þannig að við erum öll ótrúlega ánægð með nýja fimleikahúsið.”
Æfir líka með Stjörnunni
Heiðrún hefur mjög mikinn metnað og er dugleg að setja sér markmið sem hún ætlar sér að ná. Hún fylgist mikið með hvað stelpurnar í öðrum félögum eru að gera og ætlar sér ekkert að vera síðri en þær í fimleikum. Þjálfari Stjörnunnar talaði við Heiðrúnu um að kíkja á æfingar þeirra svo hún sló til og fór á nokkrar æfingar með þeim í vetur. „Það var mjög gott fyrir mig. Þar er til dæmis sænsk stelpa sem hefur náð langt þannig ég gat fylgst vel með henni og lærði mikið varðandi tækni og annað. Í Stjörnunni æfa líka fleiri stelpur sem eru á svipuðum aldri og ég og sem gera svipuð stökk þannig að þetta var mjög skemmtilegt.”
Aldrei að gefast upp!
Hvað er það við fimleikana sem heillar þig svona mikið?„Það er held ég bara allt við fimleikana sem ég elska! Hraðinn og stökkin sem við gerum í loftinu. Ég elska líka fjölbreytnina því við í hópfimleikunum æfum 3 áhöld, dans, dýnu og trampólín. Maður er aldrei að gera sömu stökkin.”
Að lokum segir Heiðrún galdurinn við velgegni í fimleikum vera að gera alltaf sitt besta, nýta allar æfingar til að verða betri og að sjálfsögðu að gefast aldrei upp. „Fimleikar eru þannig íþrótt að maður þarf að gera sömu hlutina milljón sinnum til að ná þeim rétt en þeir eru svo skemmtilegir þegar manni fer fram.”
Texti: Jóhanna Margrét Snorradóttir