„Það er æðisleg lífreynsla að ferðast“
Sunneva Fríða og Jón Tómas fóru með stuttum fyrirvara í fjögurra mánaða reisu þar sem þau heimsóttu meðal annars Nýja Sjáland og Kambódíu. Sunneva segir að þau hafi alltaf verið að tala um hversu skemmtilegt það væri að fara í langt ferðalag og skoða heiminn betur, Jón Tómas stakk síðan upp á því að fara í reisu og ferðin var bókuð um mánuði seinna.
Ferðalag þeirra var í heildina fjórir og hálfur mánuður og á þeim tíma heimsóttu þau Sunneva og Jón Dubai, Maldíveyjar, Sri Lanka, Singapore, Malasíu, Tæland, Víetnam, Kambódíu, Balí, Ástralíu, Nýja Sjáland, Fiji og Hong Kong. Þegar Sunneva er spurð hvað hafi staðið upp úr í ferðinni, þá segir hún að það sé ómögulegt að nefna eitthvað eitt, því það hafi verið svo ótrúlega margt sem stóð upp úr.
„Sri Lanka kom okkur mjög á óvart, mikið menningarsjokk en ótrúlega fallegt land og indælt fólk. Við lærðum að kafa í Tælandi sem var ótrúlega skemmtilegt. Fórum einnig í fílaathvarf í Tælandi þar sem við fengum að labba með og baða frjálsa fíla sem hefur verið bjargað úr túristaþrælkun, það var mögnuð upplifun.“ Sunneva nefnir einnig Halong Bay í Víetnam, Killing Fields í Kambódíu (gott að Googla það) og Angkor Wat. Eyjahopp á Fiji þar sem þau snorkluðu með hákörlum og hún gæti haldið endalaust áfram.
Skipulagning ferðarinnar tók ekki langan tíma en þau fóru á fund með ferðaskrifstofunni Kilroy og ákváðu til hvaða landa þau ætluðu að fara til og hvað þau ætluðu að eyða löngum tíma í hverju landi. „Við bókuðum svo flugin í gegnum þau en vorum ekki með neitt annað planað eða ákveðið. Ef ég færi aftur þá myndi ég bara bóka flug út og hafa allt hitt opið. Því það er gott að vera ekki bundin við flug á ákveðnum degi ef manni langar að vera lengur á ákveðnum stað og kannski styttra á öðrum, þá er gott að geta ráðið því sjálfur hvenær maður vill fara á næsta stað og hvert.“
Þeim Sunnevu og Jóni langar ótrúlega mikið aftur út, en það er ekki önnur ferð á planinu. Sunneva segir þó að það sé aldrei að vita hvað þau geri.
Mælir þú með þessu?
Alveg 100% þetta er æðisleg lífsreynsla og ekkert smá skemmtilegt að ferðast, kynnast nýju fólki og annarri menningu. Maður lærir svo ótrúlega margt og upplifir svo margar nýja hluti.
Fleiri myndir úr ferðalagi þeirra Sunnevu og Jóns Tómasar má sjá á bloggsíðunni þeirra.