Tekið á tæknihræðslunni
Á Nesvöllum er hafin þróunarvinna sem miðar að því að hanna kennsluefni fyrir fólk 50 ára og eldra, svo það geti eflt færni sína á stafrænum miðlum eins og tölvum og fjarskipta- og upplýsingakerfum. Að verkefninu stendur fyrirtækið Tæknibrú sem býður fram þjónustu sína í samvinnu við þjónustumiðstöðvar, sveitarfélög, einkafyrirtæki og opinbera aðila.
Fyrirtækið skipa tveir ungir menn Andri Ottósson og Benedikt Brynleifsson sem eru menntaðir í tækni- og kennslufræðum.
Þeir félagar sáu að eldri borgarar í þeirra nánasta umhverfi voru í auknum mæli að verða ósjálfbjarga í upplýsingasamfélagi nútímans. Þeir sáu að myndast hefur stafræn gjá eða þekkingarbil milli kynslóða og hópur eldra fólks er að einangrast frá samfélagi hinna sem búa yfir færni og þekkingu á þessu sviði. Samskipti manna á milli í dag fara að stórum hluta gegnum upplýsingatækni, upplýsingar eru fengnar á Netinu og opinberar stofnanir og bankar bjóða þjónustu sína að stórum hluta með rafrænum hætti.
Markmið Tæknibrúar er að hanna kennsluefni og bjóða upp á upplýsingatækniþjálfun nemendum endurgjaldslaust. Einnig að bæta aðgengi og aðstöðu almennings að upplýsingatækni, efla upplýsingalæsi og vera hvetjandi afl til að laða að nýja notendur.
Tæknibrú hefur fengið til samstarfs við sig Nesvelli, FEB á Suðurnesjum og Reykjanesbæ til að þróa þessi námskeið og er sú vinna hafin, en sex sjálfboðaliðar tóku þátt í þeirri verkefnavinnu á Nesvöllum á dögunum. Í framhaldinu er svo stefnt að því að bjóða upp á regluleg námskeið og viðvarandi þjálfun í tölvunotkun með aðgang að leiðbeinendum og sjálfboðaliðum sem verða á staðnum til aðstoðar. Einnig er hafinn undirbúningur að fastri tölvuaðstöðu fyrir almenning á Nesvöllum.
--
VFmynd/elg – Frá námskeiðinu á Nesvöllum í liðinni viku.