Taumlaus gleði í sextugsafmæli
Erkirokkarinn og heiðursmaðurinn Rúnar Júlíusson hélt upp á sextugsafmæli sitt í Stapa í gær. Voru þar komnir saman vinir, aðstandendur og aðdáendur þessa mæta manns sem hefur glatt Íslendinga með tónlist sinni (og tilþrifum á knattspyrnuvellinum) frá unga aldri.
Að sjálfsögðu var tónlistin í fyrirrúmi og stigu á stokk nokkur stærstu nöfn íslenskar rokksögu, þar á meðal Björgvin Halldórsson, Magnús Kjartansson, KK, Magnús Eiríksson, Þorsteinn Eggertsson og hjálmar svo fáeinir séu nefndir.
Einnig tók fjölskylda Rúnars lagið, María Baldursdóttir, unnusta Rúnars, synir þeirra Baldur og Júlíus og þeirra börn fluttu mörg lög og er ljóst að þau hafa ekki langt að sækja tónlistargáfuna.
Veislustjórar voru Hjálmar Hjálmarsson og Sindri Baldursson, sonarsonur Rúnars sem fór hreinlega á kostum í hlutverki sínu.
Í tilefni af afmælinu var opnuð heimsíða tileinkuð kappanum síunga á slóðinni runarjul.is
Myndasafn frá afmælinu er væntanlegt á vf.is í dag.
VF-myndir/Þorgils Jónsson og Páll Ketilsson