Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tani kveður bakaríið og heldur til Grindavíkur
Vinirnir, Tani og Katrín í lopapeysunum góðu á skrifstofu forsætisráðherra í Stjórnarráðinu í Reykjavík sumarið 2020.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 10. desember 2021 kl. 09:47

Tani kveður bakaríið og heldur til Grindavíkur

Það eru jafnan ekki sagðar fréttir af því þó fólk fari á öldrunarheimili en sumir skreyta samfélagið á Suðurnesjum betur en aðrir og Tani, Jónatan Jóhann Stefánsson, fyrrverandi vélstjóri, er einn þeirra. Því er því tilefni til að segja frá breytingum á högum kappans sem búið hefur í Miðhúsum í Sandgerði og er nú kominn á Víðihlíð í Grindavík.

Jónatan, eða Tani, hefur í gegnum tíðina verið duglegur að safna ýmsum munum, myndum og fleiru frá litríkri ævi sinni tengdri sjómennsku. Hann á fjölda skipslíkana, m.a. af Titanic og á vef Víkurfrétta, vf.is má sjá viðtal sem tekið var við hann árið 2018 þegar opnuð var sýning á heimili hans í Sandgerði. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ásmundur Friðriksson er einn góðra vina Tana og hann hefur átt reglulega kaffifundi með honum í Sigurjónsbakaríi undanfarin ár. Þar hafa fleiri kíkt við og rætt um heima og geima við Tana, Ása og fleiri. Ási greinir frá þessum tímamótum Tana á Facebook síðu sinni og segir m.a.: 

Síðasta sagan úr bakaríinu

„Það voru tilfinningar í gangi hjá okkur Tana þega við kvöddum góða vini í Sigurjónsbakarí í morgun. Sigurjón Ásdís og Margrét hafa verið okkur sem fjölskylda í reglulegu spjalli okkar í bakaríinu og helt upp á fínt kaffi og ekki hafa menn spýtt brauðinu út úr sér. Ekki frekar en vitinu sem nóg er af og því ekki töluð vitleysan í bakaríinu.

Við eigum líka sjálfir okkar föstu kúnna sem koma og spjalla við okkur um heim og geima. Mesta fjörið er þegar gamlir sjómenn eða tengdir sjómennsku og vélum mæta í spjallið. Það er mikið atriði að vera inni í vélum. Lífið er vélar og sjómennska hjá okkur þegar sögur eru sagðar í bakaríinu. Þá er póli-tíkin fyrirferðarmikil. Við erum boðberar andstæðra póla í ríkisstjórninni og ekki er nú vafamál hvor hefur betri tengingar og stjórn á forystunni í sínum flokki. Þegar Jónatan tekur upp síman og hringi í Katrínu er svarað og hlutirnir græjaðir. Þegar ég hringi er svarið að slökkt sé á símanum eða hann utan þjónustusvæðis.

Við félagar eru þakklátir Sigurjóni, Ásdísi, Margréti og starfsfólkinu fyrir frábæra þjónustu á samleið gleði og kærleika. Fjöldi viðskiptavina sem sest hafa hjá okkur eru eftirminnilegir. Björg og hennar fólk í Sjúkraþjálfun Suðurnesja hafa litið við og þeim eru gefin góð ráð. Þá eigum við símavini sem hringja í bakaríið þegar umræðurnar hafa verið hvað gáfulegastar. Þau símtöl hafa truflað okkur töluvert en við fyrirgefum það allt á þessum tímamótum. Við erum ekki einhamir og tökum nú næsta skref.

Tani fer upp í Grindavík síðar í dag og sefur fyrstu nóttina í Víðihlíð. Hann hlakkar til og biður að heilsa. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá Sigga Ingvars og Habba Guðna, gamla vini og samtímamenn.

Á morgun fyllist bakaríið aftur af góðu fólki og maður kemur í manns stað,“ segir Ásmundur í pistli sínum. 

Stofnfélagi VG númer sjö

Tani er stofnfélagi númer sjö í Vinstri hreyfingunni, Grænu framboði, VG. Hann fór með kompáss á skrifstofu VG í Reykjavík en hann á að minna félaga hans í VG á stefnuna, að halda kúrs sama á hverju gengur. Ekki er hægt að segja frá högum Tana öðruvísi en að minnast á vinskap hans við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Hann færði henni lopapeysu á síðasta ári og hún tók á móti honum í stjórnarráðinu. Víkurfréttir voru með í þeirri för og á vf.is má líka sjá frá þeirri ferð.

Þegar Katrín forsætisráðherra var í Suðurnesjaheimsókn fyrr á þessu ári til að kynna sér stöðuna á svæðinu fór hún víða en var á næst síðasta stað í dagsferð sinni á bæjarskrifstofunum í Grindavík þar sem hún ræddi m.a. afleiðingar eldgossins í Geldingadölum við heimamenn. Hún ætlaði að enda ferðina á Vatnsleysuströnd áður en hún héldi til borgarinnar en sagði við fréttamann VF að hún þyrfti að taka eitt aukastopp í ferðinni – í Sandgerði. Fréttamaður spurði hana hvað hún ætlaði að gera þar, það væri langt úr leið. „Ég er að fara að hitta Tana minn,“ sagði hún og fór inn í ráðherrabílinn sem brunaði beint að Miðhúsum í Sandgerði.

Sigurður Ingvarsson, Hafsteinn Guðnason og Guðmundur Sørensen.



Tani á marga vini og hér er hann með nokkrum á góðri stund í Sigurjónsbakaríi. 

Tveir af bestu vinum Tana, Margeir Elentínusson og Ásmundur Friðriksson með honum heima.