Tabula-rasa taka saman aftur
Nýtt efni í vinnslu
Fyrir nokkrum árum síðan var starfandi hljómsveitin Tabula-rasa. Meðlimir hennar voru Fríða Dís Guðmundsdóttir, Finnbjörn Benónýsson og Sverrir Leifsson. Nú stendur til að endurverkja hljómsveitina og gefa jafnvel út nýtt efni.
„Smári bróðir stóð í flutningum um mánaðamótin júní/júlí og ákvað að gefa alla geisladiskana sína Rauða Krossinum. Ég var að hjálpa honum að flytja og hann fann gamlan disk sem Tabula-rasa tóku upp á sínum tíma hjá Inga Þór í Stúdíó Lubba Peace árið 2005. Ég var löngu búin að gefa mitt eintak svo að Smári gaf mér sitt. Á leiðinni heim þá hlustaði ég á diskinn í bílnum og þá rann upp fyrir mér hvað þetta var ógeðslega gott stöff. Það sama kvöld hafði ég samband við Finnbjörn og Sverri og spurði af hverju við teldum ekki í eina æfingu og jafnvel tónleika. Á æfingunni kom svo í ljós að við höfðum engu gleymt og að við værum með hrúgu af efni til að vinna úr, fyrir utan hvað soundið var þétt þrátt fyrir aðskilnaðinn,“ sagði Fríða í samtali við Víkurfréttir.
Hljómsveitin gaf diskinn aldrei út en upptökurnar eru til og nú má nálgast þær hér á Soundcloud. En eru tónleikar með Tabula-rasa á döfinni?
„Já, við erum þó ekki komin með tónleikastað svona í ljósi þess að Faktorý er að loka, ég er þó búin að vera í sambandi við helstu rokkbúllur Reykjavíkur, og svo kemur ekki annað til greina en að snúa upp á höndina á Amba og spila á Paddy's, enda héldum við nokkra tónleika þar í den.“
Fríða sem farið hefur farið fyrir hljómsveitinni Klassart ásamt Smára bróður sínum, segir Klassart ekki vera í pásu, enda er plata í smíðum. „Við erum búin að vera í mikilli lagasmíði í sumar og ég er að taka upp loka söng fyrir næstu plötu Klassart sem mun koma út með haustinu í fjarveru minni. Síðustu tónleikar Klassart að sinni verða því á Sandgerðisdögum, nokkrum dögum áður en ég held út í Listfræðinám í París, svo það er aldrei að vita hvort útgáfutónleikarnir verði ekki bara í París,“ sagði Fríða Dís að lokum.
Hér að neðan má heyra lagið Bury my bones með hljómsveitinni Tabula-rasa.