Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sýning um eina lengstu skólasögu á landinu
Föstudagur 11. mars 2016 kl. 14:45

Sýning um eina lengstu skólasögu á landinu

- Í Norðurkotsskóla á Vatnsleysuströnd

Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar opnar skólasafnið í Norðurkotsskóla um Safnahelgi. Á safninu er 144 ára skólasögu Vatnsleysustrandarhrepps, síðar Voga, gerð skil í máli og myndum. Ýmsir munir og ritaðar heimildir sem tengjast sögunni prýða safnið auk íbúðar kennara í risi. 
 
Að sögn Helgu Ragnarsdóttur er skólasaga í sveitarfélaginu með þeim lengstu á Íslandi. „Það er því af nógu að taka á sýningunni. Þar verða húsgögn og kennslugögn.“ Kennt var í Norðurkotsskóla frá 1903 til 1910. Húsnæðið var hjáleiga frá Suðurkotsskóla til að auðvelda nemendum á innströndinni, það er úr Auðna- og Kálfatjarnarhverfi, skólagönguna.
 
Minja- og sögufélagið var stofnað í kringum árið 2005. Að sögn Helgu var húsnæði Norðurkotsskóla á þeim tíma að hruni komið. „Húsið var flutt á annan stað, rétt yfir túnið og svo hófust framkvæmdir.“ Á neðri hæð hússins var kennslustofa og íbúð kennara á þeirri efri. Helga segir húsnæðið gott dæmi um það hve lítið fólk komst af með á þessum tíma. Í lítilli kennslustofu var tíu til tólf börnum kennt í einu. Skóladagurinn í þá daga var stuttur og skólaárið stóð frá október og fram í mars enda kom gjarna upp togstreita á milli skólagöngu og vinnu barna, aðallega vegna vertíðarvinnu við fiskvinnslu og sjósókn.
 
 
Minja- og sögufélagið auglýsti eftir munum til að hafa á sýningunni. Ýmis námsgögn voru í skólahúsinu, auk dagbókar kennara. „Ýmis próf og námsgögn fundust og svo hefur fólk afhent okkur ýmislegt,“ segir Helga.
 
Viktoría Guðmundsdóttir var skólastjóri í Vatnsleysustrandahreppi frá 1921 til 1952 eða í 31 ár. Lengst af bjó hún í kennaraíbúð í Suðurkotsskóla. Á árunum 1923 til 1928 voru óvenju margir nemendur í skólanum sem hétu Guðmundur. Viktoría brá því á það ráð að nefna þá Björgvin, Jónsson og Ólafsson. Nöfnunum héldu þeir svo alla tíð eftir það.

 

Sýningin verður opin á laugardag og sunnudag frá klukkan 13:00 til 15:00.
 
 
 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024