Sýning Listasafns Reykjanesbæjar tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna
Sýning Listasafns Reykjanesbæjar, Tegundagreining eftir Steingrím Eyfjörð, er tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2022.
Tegundagreining var sambland endurlits og nýrra verka eftir Steingrím Eyfjörð. Sýningin er tilraun listamannsinns til að skýra kveikjuna að eigin myndsköpun, þar sem verkin eru afmörkuð og staðsett með flokkunarkerfi, mynstri sem þróast hefur á löngum ferli listamannsins.
Listasafn Reykjanesbæjar gaf út veglega sýningarskrá í tilefni af sýningu Steingríms Eyfjörð, þau sem rita texta eru: Halldór Björn Runólfsson, Aðalsteinn Ingólfsson, Benedikt Hjartarson, Jón Bjarni Atlason og Helga Þórsdóttir. Einnig skrifaði listamaðurinn eigin skýringar á myndverkunum.
Í texta Aðalsteins Ingólfssonar um Steingrím, segir:
„Steingrímur er auðvitað eins konar ofurhetja á ystu nöf, Mad Max-týpa sem berst við að rimpa saman eftirhreytur vitundarlífsins í samfélagi sem komið er að þolmörkum, ekki með því að hamra á því „þekkta“, ekki einu sinni því „óþekkta þekkta“, svo vitnað sé í fleyg orð Donalds Rumsfeld, heldur með því að tefla fram sögum, minningum og draumum. Þegar allt annað þrýtur, er þessi þrenning haldreipið.“
Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur og Nýlistasafnið, lánuðu verk eftir Steingrím Eyfjörð á sýninguna ásamt fjölmörgum einkasöfnurum sem lánuðu sýningunni myndverk. Listasafn Reykjanesbæjar þakkar öllum þessum aðilum fyrir samstarfið og þá viljum við einnig minnast sérlega á Hverfisgallerí sem aðstoðaði safnið við gerð sýningarinnar.