Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Syngjandi húsasmiðurinn slær í gegn í Noregi
Fimmtudagur 2. desember 2010 kl. 13:53

Syngjandi húsasmiðurinn slær í gegn í Noregi

Óperusöngvarinn og húsasmiðurinn Rúnar Þór Guðmundsson hefur vakið talsverða athygli í Noregi. Norska ríkissjónarpið heilsaði upp á Rúnar Þór þar sem hann var tekinn í viðtal um ástæður þess að hann hélt til Noregs í kjölfar efnahagskreppunnar á Íslandi. Þá söng Rúnar Þór fyrir sjónvarpsmenn og var söngur hans sendur út bæði á landsvísu í Noregi og einnig í svæðisfréttum NRK Hordaland.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í kjölfar söngsins í norska sjónvarpinu fór Rúnar Þór á æfingu með Karlakór Osternes sem er í bænum Fitjum. Fitjar voru vinarbær Njarðvíkurbæjar hér á árum áður. Hann mun syngja á jólatónleikum með karlakórnum þann 12. desember nk.

Karvel Strømme, formaður karlakórsins, sagði í samtali við Víkurfréttir að kórfélagar hans í Fitjum væru spennir fyrir því að syngja með Rúnari Þór, sem mun bæði syngja með kórnum og eins flytur hann einsöng. Meðal dagskrárliða á jólatónleikum karlakórsins verður „Ó helga nótt“ sem flutt verður á íslensku.

Sagt er frá uppruna Rúnars Þórs og greint frá því að hann komi frá Njarðvík, sem hafi verið vinarbær Fitja, eins og áður segir. Karvel Strømme, formaður kórsins, er einnig með tengingu til Njarðvíkur. Hann er hálfur Íslendingur og sagði í samtali við blaðamann Víkurfrétta að bátasmiðurinn Grímur Karlsson væri í frændgarði sínum. Karvel segist koma reglulega til Íslands og þá sem leiðsögumaður með norskum ferðamönnum.

Rúnar Þór er væntanlegur heim til Íslands þann 19. desember til að syngja á tónleikum með Kristjáni Jóhannssyni.

Ljósmyndir: Bjørg Strømme