Syngjandi Friðarliljur á Suðurnesjum
Friðarliljur eru hópur syngjandi og spilandi kvenna sem kemur fram víðs vegar á Suðurnesjum og skemmtir sér og öðrum heldri borgurum með söng og hljóðfæraleik. Hópur þessi hefur verið starfandi í tæp sjö ár og var upphaflega stofnaður undir merkjum Grindavíkurdeildar Rauða kross Íslands auk þess sem hann kemur fram á eigin vegum.
Í fjögur ár hafa Friðarliljurnar mætt mánaðarlega í Reykjaneshöllina til að spila og syngja með fólkinu sem þar gengur sér til heilsubótar. Það var glatt á hjalla í vikunni þegar bæjarstjórinn leit þar við til að þakka Friðarliljunum fyrir þeirra óeigingjarna og skemmtilega framlag til menningarlífs í bænum og það var ekki að sökum að spyrja, stúlkurnar brustu í söng og fluttu með stakri prýði lögin Kóngur einn dag og Liljan fyrir bæjarstjórann sem eins og flestir viðstaddir tóku vel undir.