Svona eiga tónleikar að vera!
Sannkallaðir stórtónleikar voru í Grindavíkurkirkju í gærkvöldi þegar hinn eini og sanni Kristján Jóhannsson stórtenór hélt þar tónleika ásamt Rósalind Gísladóttur mezzó-sópran og Antoni Sigurðssyni. Tónleikarnir stóðu sannarlega undir væntingum því þremenningarnir voru í miklu stuði og Kristján tók sjálfa Hamraborgina í lokin að beiðni Dagbjarts Einarssonar og gerði það með stæl og bætti við að hann væri eini Íslendingurinn sem gæti sungið hana í réttri tónhæð!
Kristján var í fínu formi á tónleikunum og gaman að fá þennan fremsta óperusöngvara okkar Íslendinga í gegnum tíðina í heimsókn. Rósalind var einnig frábær en sem kunnugt er kennir hún söngnemendum við Tónlistarskóla Grindavíkur. Þá kom hinn ungi Grindvíkingur Anton Sigurðsson skemmtilega á óvart en þar er mjög efnilegur söngvari á ferð sem Kristján hefur verið að kenna.
Texti og myndir af vef Grindavíkurbæjar.