Súrrealískt þegar fólk syngur með - segir Nanna Bryndís Hilmarsdóttir
Nanna Bryndís er 22 ára stúlka úr Garðinum. Hún elur manninn í miðbæ Reykjavíkur þessa dagana þar sem hún vinnur að fyrstu plötu hljómsveitar sinnar Of Monsters and Men. Sveitin sú hefur vakið mikla athygli að undanförnu með lagi sínu Little talks sem er einn af smellum sumarsins 2011. Fyrst höfðu meðlimir sveitarinnar vakið athygli eftir sigur þeirra í Músíktilraunum árið 2010 en nú er í nógu að snúast hjá krökkunum og við heyrðum hljóðið í Nönnu Bryndísi um hvað væri á döfinni hjá hljómsveitinni.
„Við krakkarnir erum að klára okkar fyrstu plötu sem að mun koma út núna í september og erum mjög spennt fyrir framhaldinu. Síðan ætlum við bara að vera dugleg að spila, við spilum m.a í Keflavík núna á ljósanótt og hlökkum mikið til.
Nanna Bryndís segir þetta hafa byrjað allt saman með Músíktilraunum. „Brynjar gítarleikari og Raggi söngvari voru búnir að vera að spila með mér en þegar Músíktilraunir nálguðust ákvaðum við að það væri skemmtilegt að verða alvöru hljómsveit. Þá breyttum við um nafn og fengum Arnar trommara með okkur í bandið. Síðan bara unnum við, okkur að óvörum. Seinustu Airwaves hátíð bættust síðan Árni harmonikkuleikari og Kiddi bassaleikari við og hér erum við í dag.“
Væntanlega verið mikið um tækifæri eftir að þið sigruðuð Músiktilraunir?
Já algjörlega, allt í einu var fullt að gera hjá okkur og nóg um tónleikahald. Ég myndi alltaf hiklaust mæla með því til ungra hljómsveita að taka þátt í Músíktilraunum, þetta er svo gott tækifæri og góður vettvangur til að stíga sín fyrstu skref, enda hafa margar farsælustu hljómsveitir landsins verið búnar til í kringum Músíktilraunir.
Nanna var að byrja í Myndlistaskóla Reykjavíkur núna og segist mjög spennt fyrir skólaárinu. Í sumar starfaði hún hjá Skapandi Sumarstörfum Hins Húsins og var þá m.a. að vinna með Ragga og Árna úr hljómsveitinni við að semja ný lög, mála og spila á götum borgarinnar. „Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt sumar.“
Þið erum búin að vekja mikla athygli fyrir lagið ykkar, little talks hversu vinsælt er lagið orðið?
„Ja, það er allavega komið með yfir 168,000 plays á youtube, sem ég held sé frekar mikið, svo náðum við fyrsta sæti á lagalistanum í seinustu viku og erum búin að vera á toppnum á x-inu í 4 vikur.Við erum rosalega ánægð með hvað laginu gengur vel og ég held það hafi farið fram úr okkar björtustu vonum. Það er eitthvað ótrúlegt við það að vera svona ungt band, með sína fyrstu smáskífu í útvarpi og fólk mætir á tónleika og syngur með, þetta er mjög súrrealískt.“
Hvað ertu búin að vera að bralla í sumar?
„Fyrir utan það að vinna þá fór sumarið helst í upptökur og ferðalög um landið og til Kanada þar sem ég heimsótti fjölskylduna. Eftiminnilegast er þó líklega þegar við í hljómsveitinni fórum með Agent Fresco og Lockerbie hringinn í kringum landið að spila núna í lok júlí. Það voru 5 dagar uppfullir af endalausu stuði.“
Hvað fílar Nanna Bryndís?
Kvikmynd
„Ég vinn um helgar á videoleigu og horfi því á margar myndir og finnst erfitt að nefna eina uppáhalds. En ég rifjaði upp Aladín um daginn og hafði gaman af.“
Bók
„The boys- Garth Ennis.“
Tónlistin
„Nýja plata Bon Iver - Bon Iver, ég get ekki hætt að hlusta.“
Sjónvarpsþáttur
„30 Rock á hug minn og hjarta þessa dagana.“
Vefsíðan
„Tumblr.com er myndablogg sem mér finnst mjög gaman að skoða ég get týnst þar klukkutímum saman, en það er ekki hollt, æjæj.“
Matur
„Kjúklingur.“
Drykkur
„Vatn, ískallt úr krana.“
Myndbandið við lagið Little Talks