Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sunnudagsmorgnar heilagir
Elfu finnst gaman að elda góðan mat og bjóða fólki heim.
Föstudagur 18. júlí 2014 kl. 17:00

Sunnudagsmorgnar heilagir

Í eldhúsinu: Elfa Hrund Guttormsdóttir

Elfa Hrund Guttormsdóttir er 43 ára gamall Njarðvíkingur. Hún er gift þriggja barna móðir og á eina stjúpdóttur. Elfa er menntaður félagsráðgjafi og vinnur hjá Virk starfsendurhæfingarsjóði.
Elfa elskar að útbúa góðan morgunmat fyrir fjölskylduna á sunnudagsmorgnum sem eru algjörlega heilagir að hennar mati. Þá bakar hún ljúffengar pönnukökur sem hún ber á borð ásamt góðu meðlæti s.s. Nutella súkkulaðismjöri, bönunum, jarðarberjum, sykri og heimalagaðri rabbabarasultu. „Það er mjög gott að smyrja Nutella súkkulaðismjöri á pönnukökurnar ásamt bönunum, þessa útfærslu lærði ég í París fyrir 20 árum síðan þegar ég var au-pair þar í borg. Þá var mjög vinsælt að fara á breiðgötuna Champs elysées um helgar og fá sér Crépes með súkkulaði og bönunum.“

Ertu dugleg í eldhúsinu?
„Ég er dugleg að elda mat og sé ég aðallega um eldamennskuna á mínu heimili. Eva Sól dóttir mín er mikill bakari og hefur hún séð um baksturinn að mestu, sem ég er mjög ánægð með. Hún er sérstaklega dugleg að baka cake pops og franskar makarónur. Eiginmaður minn hefur það hlutverk að ganga frá eftir matinn sem er að mínu mati góð verkaskipting. Hann er líka miklu meiri snyrtipinni en ég. Hann er einnig góður í að grilla ofan í mannskapinn.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hefur þú gaman af því að elda?
Já ég myndi segja það. Mér finnst gaman að elda góðan mat og bjóða fólki heim. Mér finnst skemmtilegast að prófa mig áfram í eldamennskunni og elda eftir nýjum uppskriftum sem ég hef aðallega fundið í Gestgjafanum. Ég er einstaklega ánægð með verslunina Ship og hoj og geri ég mikið af því að kaupa gott hráefni hjá þeim. Við þurfum að vera dugleg að versla heima til að halda uppi góðri þjónustu hér í bæjarfélaginu.

Hvað verður oftast fyrir valinu hjá þér í eldamennskunni?
„Pönnukökurnar mínar er minn sérréttur. Ég baka oftast pönnukökur á sunnudagsmorgnum og það er líka mjög vinsælt að baka pönnukökur fyrir fótboltamót og seljast þær vanalega upp á skömmum tíma. Einnig hef ég boðið upp á heitar pönnukökur og heitt súkkulaði eftir fótboltaleiki fyrir vini og vandamenn.“


Uppskrift

3 dl hveiti
½ tsk lyftiduft
1 msk sykur
2 egg
4-5 dl mjólk
30 g smjör eða 3 msk olía
½ tsk sítrónu- eða vanilludropar
Aðferð

Setjið hveiti, lyftiduft og sykur í skál. Hrærið helminginn af mjólkinni út í og hrærið þar til deigið er orðið kekkjalaust. Bætið eggjunum við, fyrst öðru svo hinu, og sláið vel saman. Hellið afganginum af mjólkinni út í. Bræðið smjörið og bætið því í deigið ásamt kökudropunum. Bakið kökurnar á heitri pönnu.

„Pönnukökurnar mínar er minn sérréttur. Ég baka oftast pönnukökur á sunnudagsmorgnum og það er líka mjög vinsælt að baka pönnukökur fyrir fótboltamót og seljast þær vanalega upp á skömmum tíma.“