Sunna flytur tónlist af disknum „The Dream“ í Duus
Jazzpíanistinn Sunna Gunnlaugs mun halda tvenna tónleika í vikunni og gefst Íslendingum þar annað tækifæri til að hlýða á tónlist Sunnu af disknum "The Dream" en hún hélt útgáfutónleika hér á landi á jazzhátíð Reykjavíkur í ágúst s.l.
Sunna, sem er sögð fella saman þokka hins evrópska jazz við eldmóð hins bandaríska, var fyrr á árinu fyrst Íslendinga til að nota síðuna Kickstarter.com til að fjármagna að einhverju leyti útgáfu þessa disks með aðstoð tónlistarunnenda. Það verkefni tókst með eindæmum vel og kom diskurinn "The Dream" út í Bandaríkjunum á þjóðhátíðardag Íslendinga 17. júní. Í kjölfar tónleika Sunnu á austurströnd Bandaríkjanna skaust diskurinn beint í 2. sæti á jazzútvarpsstöðvum í Kanada og í 20. sæti hjá CMJ í Bandaríkjunum. Útvarpsstöð ein í Knoxville í Tennessee fylki hafði svo samband við Sunnu og óskaði eftir að nota diskinn "The Dream" í fjáröflunarherferð. Þar var eintakið af þessum íslenska jazzdiski boðið velvijuðum styrktaraðilum á $100.
Tríó Sunnu sem er skipað auk hennar á píanó, Þorgrími Jónssyni á kontrabassa og Scott McLemore á trommur ætlar að leika í Risinu við Tryggvagötu 20 í Reykjavík, miðvikudaginn 24. nóvember og hefjast þeir tónleikar kl 22. Tríóið mun svo leika í Listasal Duus hús í Reykjanesbæ fimmtudagskvöldið 25. nóvember og hefjast þeir tónleikar kl 21.