Sumarspjall: Tár, bros og takkaskór
Magnús Þórisson hefur í nógu að snúast í sumar. Meðan hann er ekki að matreiða ofan í sársvanga Suðurnesjamenn á veitingastað sínum Réttinum þá skokkar hann um knattspyrnuvelli landsins vopnaður flautu og spjöldum, bæði gulum og rauðum.
Hvernig hefur sumarið verið hingað til hjá þér?
Sumarið hefur verið skemmtilegt fram að þessu, góður tími með fjölskyldu og vinum innanlands sem og erlendis. Það er nóg að gera í vinnu hjá mér í sumar bæði í minni aðalvinnu á Réttinum og svo í dómgæslunni hlaupandi um grasvelli landsins sem er svona „semi hobby“ hjá mér ef hægt er að tala um það.
Hvað fer á grillið hjá þér?
Það er svo margt sem fer á grillið hjá mér því ég er brjálaður í það að nota það bæði sumar sem vetur. Það getur verið góður fiskur eins og Lax, skötuselur, humar í skel á sparidögum, svo laga ég stundum saltfiskrétt í álformi þegar ég er í stuði og í kjötmetinu er lambakjötið í uppáhaldi en það fer bara eiginlega allt á grillið hjá mér.
Á að ferðast eitthvað innanlands í sumar?
Það eru áætlaðar styttri ferðir hér heima í sumar, aðallega á suðurlandi svona helgarferðir með hjólhýsið, svo náttúrulega dæmi ég á flestum stöðum á landinu þannig að það er margt sem hægt er að skoða í leiðinni.
En erlendis?
Ég fór með fjölskyldunni og vinafólki í sumarhús til Spánar núna í júní og var það allveg frábær ferð og margt skoðað og brallað, keyrt um og ekki má gleyma öllu góðu steikunum, umm. En annars ferðast ég líka mikið með félögum mínum úr dómgæslunni. Vorum td. í Belfast núna í Júlí, svo er það Króatía núna á þriðjudag. Og svo líklega ferð í sept, og svo er aldrei að vita.
Hvað á annars að gera í sumarfríinu?
Þar sem ég fór út í Júní með fjölskylduna þá er ég „Officially“ búinn með sumarfríið, en ég þarf samt alltaf að taka auka frídaga út af dómgæslunni þegar ég fer erlendis að dæma.
Er eitthvað sem er einnkennandi fyrir íslenskt sumar að þínu mati?
Tár, bros og takkaskór. Lyktin af nýslegnum völlum landsins og gul og rauð spjöld.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina?
Það verður krúsað eitthvað stutt með hjólhýsið og grillið dregið fram. Sé allveg fyrir mér Sveppabæinn Flúðir, alltaf gaman að koma þangað og kíkja á grænmetið og dráttavéla-rallýið.