SUÐURNESJAMENN KOMNIR Í JÓLASKAP
Jólastemmningin er komin í fullan gang á Suðurnesjum og nú er opið alla daga til jóla í verslunum.Nýtt kortatimabil hefst í dag, 9. desember og má búast við að nú fari verslunarþunginn að aukast mikið. Kaupmenn og verslunareigendur sem blaðið talaði við segja jólaverslunina hafa verið þokkalega, margir hafi farið fyrr af stað og vilji ekki kaupa allt á síðustu dögunum. En eins og mörg undanfarin ár þá fara hlutir virkilega að gerast þegar nýtt kortatímabil hefst.Flestar verslanir eru með opið lengur um helgina, eða til kl. 18 bæði laugardag og sunnudag.Markaðsráð Reykjanesbæjar hefur samið við jólasveina úr fjöllum hér í kring um að líta í bæinn um helgina og munu þeir þramma um göturnar eftir hádegi á laugardag.Jólastemmningin nær til fleiri hluta en verslunar. Jólatónleikar eru næstu tvær helgar og svo má ekki gleyma „skreytingarúntinum“ en bæjarbúar í Reykjanesbæ hafa aldrei skreytt hús sín eins mikið og nú. Menn tala nú um jólaljósalandið í Reykjanesbæ.