Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Suðurnesjamagasín: Melkorka hlutskörpust á Hljóðnemanum
Fimmtudagur 7. mars 2013 kl. 06:56

Suðurnesjamagasín: Melkorka hlutskörpust á Hljóðnemanum

„Ég átti ekki von á þessum sigri - þetta kom á óvart. Það voru mjög margir góðir í Hljóðnemanum í ár og erfitt að átta sig á því hver myndi vinna,“ segir Vogamærin Melkorka Rós Hjartardóttir sem bar sigur úr býtum í Hljóðnemanum, söngkeppni Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Melkorka söng lagið I Can't Make You Love Me eftir Bonnie Raitt.

Keppnin var hin glæsilegasta og haldin í Andrews leikhúsinu á Ásbrú. Þar var mikið fjölmenni og mikil stemning. Í öðru sæti höfnuðu systurnar Sigríður og Sólborg Guðbrandsdætur ásamt Smára Hanssyni. Þriðju voru svo þau Ástþór Baldursson og Andrea Lind Hannah. Hressu krakkarnir í Big Band Theory tóku lagið og bæði Danskompaní og Bryn ballett skemmtu í hléi. Þorsteinn Guðmundsson var kynnir og var grínistinn góður að vanda.

„Ég vissi ekki alveg hvaða lag ég ætti að syngja þannig að ég valdi þetta. Það er svolítið erfitt að velja sér lag fyrir svona keppni,“ segir Melkorka sem mun taka þátt í Söngvakeppni framhaldsskólanna fyrir hönd FS. Syngja þarf lagið á íslensku og mun Melkorka fá aðstoð frá Bríet Sunnu Valdimarsdóttur, söngukonu, í að snara textanum yfir á íslensku.

„Aðalkeppnin leggst vel í mig og ég er ekkert smeyk,“ segir Melkorka sem sigraði Samfés, söngkeppni grunnskólanna á síðasta ári. Hún er á sínu fyrsta ári í FS og sigraði í Hljóðnemanum í fyrstu tilraun. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024