Suðurnesjamaður með mest seldu bókina frá áramótum
Suðurnesjamaðurinn Davíð Kristinsson á mest seldu bókina á Íslandi frá áramótum, 30 dagar leið til betri lífsstíls, skv. Bóksölulista Félags íslenskra bókaútgefenda. Hann heldur námskeið „30 dagar – leið til betri lífsstíls“ í Krossmóa 4, 5. hæð í kvöld kl. 20.
Davíð Kristinsson hefur starfað sem einkaþjálfari í 15 ár og sérmenntað sig sem næringar- og lífsstílsþjálfari. Hann rekur nú Heilsuþjálfun ehf. á Akureyri ásamt eiginkonu sinni Evu Ósk. Hann segir að mataræðið sem kynnt er í bókinni 30 dagar – leið til betri lífsstíls, sé enginn kraftaverka- eða sveltikúr, heldur áhrifarík leið til að bæta heilsuna, koma jafnvægi á blóðsykurinn, vinna gegn ýmsum kvillum og öðlast aukna vellíðan og orku. Þetta megi gera með því að borða hreint fæði og útiloka mat sem gæti haft slæm áhrif á líkamsstarfsemina.
Í bókinni er að finna fróðleik um jákvæð og neikvæð áhrif mismunandi fæðu, leiðbeiningar um hvað eigi að borða og hvað skal forðast, sem og grunnmatseðil fyrir 30 daga en einnig fitubrennslumatseðil og framhaldsmatseðil.
Í bókinni eru líka hátt á annað hundrað uppskriftir að hollum og girnilegum réttum, innkaupalistar og útskýringar þar sem farið er yfir dagana 30, skref fyrir skref. Einnig er í bókinni ítarleg líkamsræktaráætlun í myndum, máli og töflum.
Í kvöld, 3. apríl kl. 20-22 verður Davíð með námskeið í Krossmóa 4 í Reykjanesbæ. Hægt er að skrá sig á námskeiðið á www.30.is, á netfangið [email protected] og í síma 461 3200.
Á námskeiðinu er farið yfir:
Svefn.
Streitu.
Hvaða matur virkar fyrir þig.
Hvers vegna léttist ég ekki.
Hvaða leiðir eru færar í mataræði.
Skipulag og hagkvæmni.
Hvaða mat á ég að forðast.
Hvernig kem ég blóðsykrinum í lag og losna við sykurpúkann.
Þess ber að geta að yfir 5500 Íslendingar hafa farið í gegnum 30 daga hreinsun á mataræði.