Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Suðurnesjamaður í söngleik í Óperunni
Miðvikudagur 28. janúar 2009 kl. 13:19

Suðurnesjamaður í söngleik í Óperunni


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Suðurnesjamaðurinn Bragi Jónsson er þátttakandi í splunkunýjum söngleik Nemendaóperu Söngskólans í Reykjavík sem settur er upp í samvinnu við Íslensku Óperuna. Frumsýning verður á föstudaginn 30. jan. Verkið heitir „The show must go on“.

Um er að ræða bráðskemmtilega sýningu, sem 29 ungir og upprennandi söngvarar halda uppi af mikilli lífsgleði og góðri kunnáttu.  Söngleikurinn er „úr smiðju“ hópsins, í orðsins fyllstu merkingu, þ.e.a.s. texti og framvinda er úr þeirra smiðju, en tónlistina má ekki eigna þeim, hún er úr þekktum og vinsælum söngleikjum auk ýmissa dægurperla, gamalla og nýrra.

„Söngleikurinn er búinn til af nemendum Söngskólans. Hann spannar einn dag á kaffihúsi þar sem ótrúlega margt gerist á einum degi. Sungnar verða ýmsar söngperlur héðan og þaðan sem passa inn í aðstæður hverju sinni. Ég fer með hlutverk dyravarðarins á staðnum sem er svona þokkalegur töffari en með mjög þunna skel, stutt í mjúku hliðina á honum. Annars eru auk mín t.d. eigandi, þjónar, stráka- og stelpugengi, gamla fólkið, róni, löggur og stöðumælavörður. Annars erum við öll mjög spennt að fá að stíga á svið í þessu fornfræga húsi og vonumst við til að fólk fylli þessar tvær sýningar, ég held ég get lofað fólki góðri skemmtun," segir Bragi aðspurður um sýninguna.

Hvað hefur þú stundað söngnám lengi og hvernig kom það til?
„Ég hef stundað söngnám í rúm þrjú ár og mun ljúka framhaldsprófi í vor sem er gamla sjöunda stigið. Kennarinn minn núna er Bergþór Pálsson. Fyrir utan það að læra söng þá lærum við t.d. tónheyrn, tónfræði, hljómfræði og tónlistarsögu.Ég hef stundað tónlistarnám frá því ég man eftir mér. Ástæðan fyrir því að ég fór í söngnám er meðal annars vegna þess að ég hef einstaklega gaman af því að syngja, ákvað að prófa og síðan er greinilega ekki aftur snúið. Ég er t.d. meðlimur í Óperukórnum í Reykjavík, Voces Masculorum og kór Íslensku Óperunnar,“ sagði Bragi sem hvetur Suðurnesjamenn til að koma á sýninguna.

Tvær sýningar eru ráðgerðar á verkinu í Íslensku óperunni:
Föstudaginn 30. janúar kl. 20 og sunnudaginn 1. febrúar kl. 17  
Aðgöngumiðasala er í miðasölu Íslensku óperunnar, daglega kl. 14 - 18 og fram að sýningum sýningardaga:
Miðasala: Sími 511 4200 / Fax 552 7384 / Netfang: [email protected]
Rafræn miðasala:  http://midi.is/opera / Almennt miðaverð: 2.500 kr. / Númeruð sæti.

Bragi Jónsson er fjórði frá vinstri á myndinni að ofan.