Suðurnesjakonur gera það gott!
Það er margt spennandi um að vera hjá Suðurnesjakonum í nýsköpun og fyrstu skrefum rekstrar þessa dagana. Miðvikudaginn 11. maí útskrifuðust 13 glæsilegar konur af Brautargengisnámskeiði Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem haldið var í Frumkvöðlasetrinu á Ásbrú í vetur. Á myndinni má sjá þennan glæsilega útskriftarhóp en þar er í uppbyggingu fjöldi flottra fyrirtækja á hinum ýmsu sviðum. Á myndinni (frá vinstri):
Selma Dögg Sigurjónsdóttir (Nýsköpunarmiðstöð Íslands), Íris Rós Söring (leirmunir), Ragnheiður Ásta Magnúsdóttir (Húsið okkar), Ingibjörg Magnúsdóttir (ÍMA), Hulda Sveins (Raven Design), Laufey Kristjánsdóttir (Bergnet), Arnfríður Kristinsdóttir (Styrktarþjálfun.is), Helga Björg Steinþórsdóttir (Mýr Design), Bjarnhildur Árnadóttir (Myndsaumur), Edda Svavarsdóttir (innanhússráðgjöf) og Jenný Þórkatla Magnúsdóttir (Faxi Baycruise). Á myndina vantar Bryndísi Guðmundsdóttur (Lærum og leikum með hljóðin), Margréti Sif Sigurðardóttur (Já takk) og Þórunni Benediktsdóttur (Húsið okkar).
Í gær og í dag er svo haldin ráðstefna í Hörpunni til að vekja athygli á konum í nýsköpun, EUWIN, eða European Women Inventors & Innovators Network. Þar getum við Suðurnesjamenn einnig verið stoltir, en a.m.k. fjórar konur héðan eru tilnefndar til verðlauna þar. Það eru þær Bjarndís Helena Mitchell, með Handlers sýningartauma fyrir hunda, Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur með Lærum og leikum með hljóðin, Ólafía Ólafsdóttir með StudiOla Design sem vinnur ýmsar vörur úr endurunnu dekkjagúmmíi og Sveindís Valdimarsdóttir sem hefur verið að vinna með pappír á nýstárlegan hátt. Verðlaun verða svo veitt við hátíðlega athöfn í kvöldverði í glæsilegum Lava sal Bláa lónsins í kvöld. Til gamans má geta að á síðustu ráðstefnu hlaut önnur Suðurnesjakona nýsköpunarverðlaun EUWIN, en það var Hulda Sveins með heilsukoddann Keili.
Það er því óhætt að segja að Suðurnesjakonur eru að gera góða hluti og leggja sitt lóð á vogaskálarnar við að auka fjölbreytni atvinnuflórunnar á Suðurnesjum!