Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Suðurnesjakonur fjölmenna í nýjan félagsskap
Fimmtudagur 16. september 2010 kl. 15:45

Suðurnesjakonur fjölmenna í nýjan félagsskap


Yfir 100 konur á öllum aldri mættu nú í vikunni til stofnfundar félagsskapar sem ætlað er að efla konur á Suðurnesjum. Félagsskapnum, sem ekki hefur enn fengið heiti, er ætlað að hvetja Suðurnesjakonur til dáða í námi og starfi og efla tengslanet þeirra hér á svæðinu.

Þær Þóranna K. Jónsdóttir og Anna Lóa Ólafsdóttir hafa annast undirbúninginn og boðuðu þær til fundarins. Þeir segjast afar ánægðar með þann áhuga sem framtakið hefur vakið, eins og sjá mátti á stofnfundinum. Næstu fundur hefur verið boðaður þann 5. október næstkomandi.

Anna Lóa opnaði fundinn, kynnti hugmyndina á bak við hann og mikilvægi þess að konur styrktu tengslanetið, efldu sjálfar sig og aðrar. Því næst tók Lísbet Einarsdóttir frá Lectura við og kynnti Insights, sem er aðferðafræði til að læra betur að skilja sjálfan sig og aðra. Þar er unnið með manngerðir sem hún lýsti á afar lifandi og skemmtilegan hátt.
Karen Sævarsdóttir flutti erindi um mikilvægi hugarfars í öllu því sem fólk tekur sér fyrir hendur, hvort sem það er í vinnu, íþróttum, persónulegu lífi eða öðru.

Þær Anna Lóa og Þóranna segjast vilja fleiri konur frá sveitarfélögunum utan Reykjanesbæjar og hvetja þær sem komu á stofnfundinn að mæta á næsta fund með vinkonur sínar úr hinum sveitarfélögunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024