Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 19. október 2000 kl. 11:44

Styttist í Herra Suðurnes 2000

Keppnin Herra Suðurnes fer fram í Stapa 3. nóvember nk. Húsið opnar kl. 21:30 og að keppni lokinni sér Skítamórall um að halda uppi stuðinu. Miðaverð að þessu sinni er aðeins 2500 þannig að sem flestir ættu að sjá sér fært að mæta á keppnina. Einar Lars Jónsson er sýningarstjóri Herra Suðurnes en hann hefur séð um þjálfun strákanna. „Ég sem atriðin, aðstoða þá við framkomu og allt sem viðkemur sýningunni“, segir Einar en hvað þurfa strákarnir að gera til að vinna titilinn? „Þeir þurfa að líta vel út en mestu máli skiptir hvernig þeir koma fram um kvöldið“, segir Einar. Sýningin verður óhefðbundin að þessu sinni. „Þetta verður öðruvísi og flott sýning. Fyrst koma þeir fram í alla vega búningum, síðan á nærbuxum og hlýrabol, í þriðju innkomu verða þeir í thai buxum og að lokum birtast þeir í jakkafötum.“ Í dómnefnd sitja Elín Gestsdóttir, eigandi keppninnar, Herra Ísland og tveir Suðurnesjamenn, en ekki er búið að ákveða hverjir það verða. Undirbúningur keppninnar hefur verið mjög skemmtilegur, að sögn Einars Lars og hópurinn hefur náð vel saman. „Mórallinn hjá strákunum er góður og þetta er tvímælalaust hressasti hópur sem ég hef verið með. Við æfum fjórum sinnum í viku í Stapa en við gerum einnig margt skemmtilegt saman. Við förum t.d. að kafa með Tómasi Knútssyni, sem er að stofna Sportköfunarskóla í Keflavík og næstu helgi förum við í ferðalag. Þá verður farið í Paint-ball, Go-kart, í Bláa Lónið og síðan á djammið.“ Styrktaraðilar keppninnar eru Sparisjóðurinn, Georg V. Hannah, Gallerý Förðun, Síminn-GSM, K-Sport, Apótek Keflavíkur, Stúdíó Huldu, Hársnytistofa Harðar, Persóna, Stapinn og Kóda. „Ég hvet alla til að mæta í Stapann 3. nóvember og ég get lofað flottri sýningu og brjáluðu balli um kvöldið, Skítamórall sér til þess“, segir Einar Lars.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024