Styrktarmót fyrir fjölskyldu Sigurfinns
Golfklúbbur Grindavíkur heldur golfmót næsta laugardag til styrktar fjölskyldu Sigurfinns Jónssonar, sem lést í umferðarslysi á Grindavíkurvegi í vor. Hann lét eftir sig eiginkonu og þrjú börn.
Heimasíða Grindvíkurbæjar hefur eftir Páli Erlingssyni, formanni GG, að klúbburinn vilji minnast góðs félaga á þennan hátt, en Sigurfinnur var mjög áhugasamur kylfingur og meðlimur í Golfklúbbi Grindavíkur.
„Þetta verður eitt veglegasta golfmót sem GG hefur haldið, vinningar verða stórglæsilegir og margir sem leggja hönd á plóginn. Leikið verður með texas scramble fyrirkomulagi og ræst út klukkan átta á laugardaginn,“ sagði Páll.
Þátttökugjald er 4.000 kr. og skráning er á golf.is. Nánari upplýsingar má sjá á vef golfklúbbsins með því að smella hér
H: grindavík.is - Mynd af vef Golfklúbbs Grindavíkur