Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín
Viktor Örn Andrésson, yfirmatreiðslumaður.
Sunnudagur 9. febrúar 2014 kl. 09:00

Styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín

Viktor Örn Andrésson sigraði í keppninni um matreiðslumann ársins í fyrra og er í kokkalandsliðinu.

Viktor Örn Andrésson, er einn þriggja yfirkokka Bláa Lónsins og er að hefja sitt fjórða starfsár. Hann sigraði í keppninni um matreiðslumann ársins í fyrra og er með Þráni í kokkalandsliðinu. „Við erum þrír yfirmatreiðslumeistarar hér, erum ólíkir og styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín.“ Viktor segir að þeir félagarnir séu á miðri leið og starfið hafi gengið vel. Þeir hafi þó að sjálfsögðu metnað í að gera enn betur. Viktor segir að það hafi verið gaman að taka þátt í uppbyggingu Lava veitingastaðar Bláa Lónsins. „Við þurfum að vera tilbúin til að taka á móti bæði hópum sem hafa bókað fyrirfram og einnig gestum Bláa Lónsins sem panta þá af seðli. Góð liðsheild og andi á meðal starfsfólks skiptir lykilmáli til að allt gangi vel hjá okkur.“

Umhverfið skiptir miklu máli

Erlendir gestir eru í meirihluta þeirra sem sækja veitingastaðinn og mest er að gera í hádeginu. Þar er íslenska lambið vinsælast ásamt fisknum. „Umhverfið skiptir miklu máli og fólk kann vel að meta umhverfi Bláa Lónsins þar sem fólk slakar vel á og nýtur matarins um leið. Ég hvet þá sem eiga eftir að heimsækja okkur til að koma, sjá og upplifa,“ segir Viktor sem ekur 40 mínútna leið til vinnu frá höfuðborginni.

Kemur pollrólegur heim

„Ég gekk alltaf fimm mínútna leið til og frá vinnu áður og var því alltaf með vinnuna í kollinum þegar ég kom heim. Núna nýti ég tímann á leiðinni í að slaka á og fá tíma út af fyrir mig og hugsa. Það er fínt að keyra brautina og koma pollrólegur heim.“ Hann segist þó fara alltof sjaldan í Lónið en reyni þó að fara einu sinni í viku. Starf matreiðslumanns er krefjandi og ekki fyrir alla,“ segir Viktor en hann er jafnframt ánægður með hversu margir sýni því áhuga á að koma og læra hjá þeim.

Með 14 nema í vinnu

Um er að ræða nemendur sem búnir eru með grunnnám og einnig ungt fólk sem er harðákveðið í að fara út í þetta og á eftir að fara í nám. „Við erum með 14 nema hjá okkur núna og við reynum að hvetja þá til að taka þátt í keppnum og fara til útlanda til að heimsækja erlenda veitingastaði, dvelja um tíma og fá að taka þátt í starfi þeirra. Hann er nýkominn frá Chicago þar sem hann heimsótti veitingastaðinn Alinea og kynntist því helsta sem er einkennandi fyrir einn framsæknasta veitingastað heims. Veitingahúsaumhverfi getur verið mjög krefjandi en einn af kostunum við að vera kokkur er að það er hægt að vinna hvar sem er í heiminum,“ segir Viktor og brosir.  
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024