Stuttmynd úr Heiðarskóla í öðru sæti í landskeppni
Stuttmynd frá nemendum úr 7. bekk í Heiðarskóla í Reykjanesbæ varð í 2. sæti í stuttmyndasamkeppninni Sexan fyrir 7. bekki grunnskóla landsins. Samkeppnin var gerð fyrir Viku6.
Sjöundi bekkur í Heiðarskóla tók þátt í keppninni og voru sex hópar sem skiluðu inn stuttmynd, þrjár af þeim voru valdar í aðalkeppnina.
Hópur nemenda í 7. SB varð í öðru sæti í landskeppninni. Hópinn skipa þau Jón Ingi, Rut Páldís, Ólavía Karen, Tristan Ingi, Birgir Már og Lena.
Umsögn dómnefndar um myndina var eftirfarandi: „Virkilega vel gerð mynd og söguþráðurinn trúverðugur. Grafíkin er einnig mjög skemmtileg. Áhrifarík hljóðblöndun og myndataka og sérstaklega vel unnið með kvikmyndamiðilinn í lokasenu myndarinnar sem er mjög eftirminnileg!“
Sexan er stuttmyndasamkeppni sem er ætlað að fræða ungt fólk um mörk og samþykki en einnig um tilurð, birtingarmyndir og afleiðingar stafræns ofbeldis.
Það voru lögregluþjónar sem komu og tilkynntu um annað sætið og afhentu hópnum viðurkenningarskjal.
„Þetta var frábær árangur og mjög flott vinna hjá nemendunum öllum í 7. bekk,“ sagði Lóa Gestsdóttir, aðstoðarskólastjóri Heiðarskóla.
Vika6
Vikuna 6.–10. febrúar fengu nemendur í 7., 8. og 10. bekk í Reykjanesbæ fræðslu um m.a. kynímynd, kynvitund, kynheilbrigði, samskipti kynja, mörk og kynferðislegt ofbeldi.
Undanfarin þrjú ár hefur Reykjavíkurborg í samstarfi við nemendur og sérfræðinga útbúið flott efni fyrir unglinga sem er í takt við þetta. Árlegt átak er í sjöttu viku hvers almanaksárs. Fleiri skólar og sveitarfélög hafa slegist í hópinn og tekið þetta efni sérstaklega fyrir í Viku6.
Allir skólarnir í Reykjanesbæ tóku þátt í Viku6 í ár. Tímarnir voru að einhverju leyti samræmdir milli skóla. Nemendur flestir spenntir og ánægðir með kennsluna og kennurum sem tóku þátt finnst almennt vel hafa tekist til.
Hér má sjá verðlaunastuttmynd Heiðarskóla | RÚV Sjónvarp (ruv.is)
Græna duftið valið
Fimm nemendur í 5. bekk unnu að handritagerð í verkefni sem heitir Sögur 2023. Sögur er samstarfsverkefni margra stofnana sem allar vinna að barnamenningu og sköpun. Krakkar á aldrinum sex til tólf ára geta sent inn sögurnar sínar á því formi sem þau kjósa. Smásögur, lag og texti, stuttmyndahandrit eða leikrit.
Nemendurnir eru þær Árdís Eva Árnadóttir, Berglind Rún Sigurðardóttir, Freydís Erla Ómarsdóttir, Lovísa Rut Ágústsdóttir og Valgerður Ósk Þorvaldsdóttir. Þær byrjuðu vinnuna í skólanum í verkefni sem kennarinn þeirra, Hanna Björk, lagði fyrir en kláruðu svo sjálfar handritið heima og sendu það inn í keppnina. Handrit þeirra, Græna duftið, var eitt af tveimur handritum sem var valið sem sigurvegari í stuttmyndasamkeppni Sagna 2023. Að launum er þeim boðið í Meistarabúðir, þar sem boðið verður upp á skapandi smiðjur í öllum flokkum. Stuttmynd verður framleidd af RÚV upp úr handriti þeirra og sýnd í vor á verðlaunahátíðinni, sem verður í beinni útsendingu í sjónvarpssal RÚV í Hörpu.