Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Stundum þarf bara smá Ellý Vilhjálms
Laugardagur 19. júlí 2014 kl. 15:00

Stundum þarf bara smá Ellý Vilhjálms

Afþreying Suðurnesjamanna

Gunnar Hörður Garðarsson er 25 ára stjórnmálafræðinemi við Háskóla Íslands. Gunnar er fæddur á sjúkrahúsinu í Keflavík en uppalinn í Garðinum. Gunnar er heimshornaflakkari, nörd og stjórnmála-nöttari, eins og hann orðaði það svo skemmtilega. Við fengum Gunnar til þess að segja okkur frá því sem hann gerir sér til afþreyingar.

Bókin

Ég hef að mestu verið í námsbókunum í vor og lítinn tíma gefið mér til að byrja á nýjum bókum. Er enn að fletta bókinni Stúdentsárin: Saga stúdentaráðs en hún spilar stóran part í BA ritgerðinni minni í stjórnmálafræði og er kannski minna til yndisauka. Byrjaði að lesa A Game of Thrones þegar ég komst í smá frí í síðasta mánuði, held jafnvel að ég haldi því áfram til þess að fá ekki fráhvarfseinkenni frá þáttunum. Bækurnar verð ég að segja eru betri en þættirnir þó þeir standi sig mjög vel í að skila stemningunni úr bókunum á skjáinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tónlistin

Ég hlusta mest á tónlist í bílnum. Svo er „playlisti“ í búðinni sem ég vinn í sem ég er búinn að heyra mörg þúsund sinnum. Það hefur því verið svolítið langþráð þögn á kvöldin þegar ég kem heim. Annars fann ég gamla plötu um daginn með Ælu sem ég spilaði í drasl þegar ég var 18 ára, var að hlaða henni inn á símann svo það fer á fóninn núna. Annars hefur enginn einn tónlistarmaður eða hljómsveit verið að heilla mig þessa dagana, ég hef því miður ekki gefið mig nóg að tónlistarhlustun upp á síðkastið. Ég fæ reglulega Cry me a river með Justin Timberlake á heilann, held það sé rigningin sem er búin að vera í sumar. Hvað ég hlusta mest á fer algjörlega eftir stemningu. Prodigy og önnur hressandi raftónlist nær alltaf að rífa upp stemningu hjá mér en stundum þarf maður bara smá Ellý Vilhjálms. Svo kemur ýmislegt þar á milli.

Sjónvarpsþátturinn

Vísindaskáldskapur og ævintýri. Ég horfi alveg á venjulega þætti en sæki ekki eins mikið í þá. Ef það eru ekki geimverur, galdrar, yfirnáttúrulegir atburðir og lélegar tæknibrellur, þá er ég ekki svo auðveldlega keyptur. Er að rúlla í gegnum gamla Star Trek þætti með Perlu kærustunni minni, erum búin með seríurnar frá 1966 til 69 og byrjuð á Next Generation. Klassa sjónvarp þar sem tekist er á við margvísleg samfélagsvandamál á framúrstefnulegan hátt, svona miðað við að þetta var tekið upp fyrir hálfri öld.