Stundar brimbretti á Íslandi
- Vilhjálmur Ólafsson prufaði brimbretti hjá vini sínum og heillaðist
Vilhjálmur Ólafsson eyðir frítíma sínum ekki eins og flestir aðrir Íslendingar. Hann skellir brimbrettinu sínu í bílinn, tekur myndavélina með og keyrir af stað í leit að öldum og ævintýrum. Vilhjálmur stundar brimbretti við Íslandsstrendur og lætur kuldann ekki stoppa sig. Hann er einnig áhugaljósmyndari og er vinsæll á samfélagsmiðlum, en hann er með um 6.000 fylgjendur á Snapchat. Myndir Vilhjálms vekja athygli og fanga oft mögnuð augnablik af samspili náttúru og veðurs með jaðaríþróttaívafi. Ísklifur, klettaklifur, snjóbretti og brimbretti eru helstu áhugamál Vilhjálms og fara vel saman með áhuganum á ljósmyndun.
Þú stundar brimbretti á Íslandi. Hvernig byrjaði það? Og hvað þarf til að stunda þetta sport hér á landi?Ég fékk að prófa brimbretti hjá bandarískum vini mínum og heillaðist af því. Það þarf að þola vel kulda og vera tilbúinn að keyra langar vegalengdir. Við þurfum oft að sofa í tjaldi eða bíl sem getur verið ævintýri. En þessu fylgja til dæmis eyrnasýkingar, því vatnið er svo kalt. Þá er ekki hægt að „surfa“ í nokkrar vikur. Á veturna er aðeins hægt að vera í sjónum í stuttan tíma í senn.
Er brimbrettaíþróttin stór hér á landi?
Nei það eru fáir í þessu á Íslandi og við erum flestir góðir vinir. Það eru margir sem prófa en hætta strax.
Nú ert þú áhugaljósmyndari, tekurðu myndavélina með hvert sem þú ferð? Hvað gerirðu við myndirnar?
Já, myndavélin kemur alltaf með mér hvert sem ég fer. Líka út í sjó. Myndirnar sem ég tek á ferðalögum okkar set ég aðallega á samfélagsmiðla. Ég er með tvo Instagram aðganga, annan bara með ljósmyndum og hinn með ferðalögum mínum. En svo eru alltaf einhverjir sem vilja kaupa mynd til að hengja upp á vegg hjá sér.
Ertu í þessu aðeins upp á gamanið eða stefnir þú á að keppa?
Ég er að þessu fyrir gamanið og mun ekki fara að keppa.
Þú hefur farið til Californiu að „surfa“. Getur þú sagt okkur frá því og helsta muninum á að surfa þar og hér?
Ég fór til Californiu í desember í fyrra með Ellerti vini mínum og svo aftur núna með öðrum vini mínum, Brynjólfi í ágúst. Ég er búinn að fara alla leið frá San Diego og norður til San Francisco. Við vorum mest í Dana Point og í kringum Santa Monicu. Þar er mun betra „surf“ heldur en hér og meira en helmingi hlýrri sjór þó það sé vetur þar. Hér er ekki hægt að fá nýtt bretti ef þitt brotnar, sem skeður reglulega. Þar ferðu bara í næstu búð og finnur þér nýtt bretti.
Í fyrra skiptið keyrðum við svokallað Big Sur sem er strandlengja og er hún ein sú flottasta sem ég hef séð. Við „surfuðum“ hinar og þessar strendur á leiðinni og eignuðumst góða vini. Í ágúst var svo ferðinni heitið til Hawaii en við þurftum að aflýsa þeirri ferð þar sem tveir fellibylir voru á leiðinni þangað. Við Binni ákváðum því að fara til Californiu í staðinn þar sem það er beint flug. Frændi hans býr þar og leyfði okkur að gista hjá sér fyrstu dagana. Svo vorum við í 10 daga hjá stráki sem ég þekki í Dana Point. Hann starfar sem brimbrettaleiðsögumaður þar. Við vorum alveg við ströndina og löbbuðum á tánum niður á strönd með brettin. Þar vorum við mest allan daginn enda nóg að gera þar. Við horfðum á keppni með 30 bestu brimbrettaköppum í heiminum. Svo þræddum við flestar búðirnar í leit að góðum brettum til að taka með heim.
Hverjir eru þínir framtíðardraumar og markmið?
Halda áfram að ferðast og ævintýrast eins mikið og ég geri hingað og þangað um heiminn í leit að öldum.
Við Brynjólfur erum að byrja að framleiða myndbönd til að gefa út á þriggja mánaða fresti sem sýna öll okkar ævintýri. Ef fólk vill fylgjast með mér þá heiti ég ‘villiolafs’ á Snapchat og Instagram.