Stúdíóportrett af dýrum á útskriftarsýningu
Guðfinna Magnúsdóttir er tuttugu og eins árs gamall Grindvíkingur sem var að ljúka tveggja og hálfs árs námi úr Ljósmyndaskólanum. Að því tilefni opnaði hún útskriftarsýningu síðastliðinn fimmtudag að Laugarvegi 96 í Reykjavík. Þar sýnir hún ásamt stöllu sinni Unni Ágústsdóttur sem einnig var að útskrifast úr skólanum.
„Verkefni mitt er Dýr og heimili. Ég tók dýrin úr sínu hefðbundna
umhverfi og tók portrett af þeim í stúdíói á hvítum bakgrunni. Síðan tók ég landslagsmyndir af heimilum þeirra, náttúrunni, á pinhole myndavél sem er ein einfaldasta gerð myndavéla.
Þetta var mjög skemmtilegt og gaman að kynnast því hversu misjöfn dýrin eru,“ segir Guðfinna um verk sín á sýningunni.
Verk Unnar eru einskonar frásögn tíma og veðurs en hugmyndavinna þeirra Guðfinnu og Unnar fór fram í samvinnu við nemendur og kennara skólans. Ásamt þessum verkum eru á sýningunni eldri verkefni sem þær hafa unnið undanfarið.
Sýningin verður opin fram að jólum frá kl. 13-22. Á milli jóla og nýárs frá 13-18 og 3. janúar frá 13-18.