Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Stríðsmaður úr Vogunum
Laugardagur 6. maí 2017 kl. 06:00

Stríðsmaður úr Vogunum

Leyfir landsmönnum að fylgjast með krabbameinsmeðferðinni á Snapchat.

Héðinn Máni Sigurðsson er 18 ára strákur úr Vogunum sem berst við krabbamein. Hann hefur síðustu vikur leyft almenningi að fylgjast með meðferðinni á samfélagsmiðlinum Snapchat þar sem hann svarar spurningum um krabbameinið og sýnir frá ýmsu úr lífi sínu. Hann segist ákveðinn að sigrast á krabbameininu eins og stríðsmaður.

Héðinn greindist með meinið fyrir um það bil tveimur mánuðum en hann glímir við þriðja stigs slímhimnukrabbamein í höfði. Til að byrja með var talið að Héðinn væri með eyrnabólgu, vegna svipaðra einkenna, en annað kom á daginn. Hann segir krabbameinið nokkuð alvarlegt en hann fer á þriggja vikna fresti á Barnaspítala Hringsins í lyfjagjöf. „Það er mjög þægilegt á Barnaspítalanum. Maturinn er samt ekkert sá besti en eftir að ég setti matinn inn á Snapchat voru kokkar sem höfðu samband og ætla að elda fyrir mig,“ segir Héðinn, en hann hefur ákveðið að taka mataræðið í gegn eftir að hafa fengið ábendingar um það. „Krabbameinið nærist á kolvetnum og sykri þannig ég held ég þurfi bara að gera það.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hann segist ennþá vera að læra á Snapchat en nokkur þúsund manns fylgjast með honum þar þessa dagana. Þá hafa Suðurnesjamennirnir Gæi og Kíló, sem einnig eru stórstjörnur á Snapchat, mælt með Héðni við sína fylgjendur og í kjölfarið hefur fylgjendahópur Héðins stækkað töluvert. „Þessir stóru snapparar eru búnir að gera mig að risa snappara. Þetta er búið að gerast mjög hratt en þetta er hugsað til þess að útskýra krabbameinið fyrir fólki og leyfa því að spyrja mig. Ég hefði viljað geta spurt einhvern nánar út í hlutina sjálfur, eins og vin. Ég spjalla stundum við fólk þó að ég þekki það ekkert, en það spyr aðallega um meðferðina og hvernig krabbamein þetta sé. Ég hef líka fengið rosalega mikið af ráðum frá fólki sjálfur.“

Héðinn er uppalinn í Vogunum og hefur búið þar nánast alla ævi, á sama sveitabænum. Hann hefur gaman að kvikmyndagerð, rafmagni og tölvum og langar að starfa sem rafvirki í framtíðinni. Hann hóf nám í rafvirkjun við Fjölbrautaskóla Suðurnesja en þurfti að hætta námi sökum greininga sem hann er með, meðal annars ADHD, sem orsökuðu einbeitingarleysi hjá honum.

Hann segist ekki hafa orðið hræddur þegar hann greindist með krabbameinið og segir lækna hafa hrósað honum fyrir viðbrögðin og jákvæðnina. „Ég ákvað bara að lifa í núinu og taka einn dag í einu. Það er í raun það eina sem virkar fyrir mig, að reyna að vera jákvæður,“ segir Héðinn, en áhugasamir geta fylgst með honum á snapchat undir notandanafninu heddimani.

[email protected]