Stríðsástand við flugstöðina
Á A-stöðinni eru um fimmtíu leigubílar. Flestir eru bílstjórarnir karlra en nokkrar konur eru einnig með stöðvarleyfi og eru í akstri. Það hefur þó verið þannig í gegnum árin að leigubílaaksturinn hefur ferkar verið karlastarf, enda vinnutíminn oft langur og á ókristilegum tíma. Leigubílstjórar eru oftar en ekki komnir á ferðina um miðja nótt og síðasti túr dagsins jafnvel í kringum miðnætti. Leigubílstjórar eru að lenda í ýmis konar aðstæðum og margt skrautlegt sem oft gengur á. Undanfarnir mánuðir hafa verið sérstakir fyrir marga leigubílstjóra. Menn sem hafa alist upp við það sem kallað er stöðvarleyfi og að regluverk hafi verið í gildi um þessa atvinnugrein eru í dag að upplifa eitthvað frumskógarlögmál og algjört stjórnleysi. Upp hafa sprottið nýir bílstjórar sem eru mættir í harkið og jafnvel hefur komið til átaka. En hvernig stendur gamalgróna Aðalstöðin eða A-stöðin eins og hún heitir í dag? Útsendari Víkurfrétta hringdi í 420-1212 og pantaði bíl frá A-stöðinni. Óskað var eftir bílstjóra sem talaði kjarngóða íslensku og gæti sagt frá lífi leigubílstjórans á A-stöðinni. Kristinn Arnar Pálsson er talsmaður stöðvarinnar og tók blaðamann í bílferð um Reykjanesbæ.
Menn geta bara hagað sér eins og þeir vilja
Hvernig er líf leigubílstjórans í dag?
„Já, það er mjög breytt eftir að þessi nýju lög komu og allt var gefið frjálst. Þetta er bara orðinn hálfgerður frumskógur. Það var allt gefið frjálst, verðlagning og annað og menn geta bara hagað sér eins og þeir vilja. Eins og kannski allir hafa heyrt þá er náttúrulega ástandið við flugstöðina ekki til að bæta að það. Það er bara stríðsástand þarna upp frá. Það er kominn hellingur að nýjum stöðvum og þær skiptast bara eftir þjóðernum, þjóðarbrotum og trúarbrögðum. Þetta er bara alls ekki gott hvernig ástandið er á þessu og eftirlitið er ekkert.
Á meðan gömlu lögin voru, þá voru við undir stanslausu eftirliti frá ríkisskattstjóra og lögreglu. Það var athugað með leyfi og hvort við værum að borga skatta. Í dag hefur ekkert verið gert síðan nýju lögin komu. Það hefur ekki verið litið á þetta. Á meðan gömlu lögin voru var litið á þetta sem fullt starf, nú er þetta hlutastarf og þar af leiðandi eru menn okkur frjálsir með hvað er gefið upp á sig og hvað er mikill tími á bak við þessa vinnu. Þetta er ekkert skoðað.“
Þetta er bara algjör frumskógur?
„Já, þetta er algjör frumskógur og það er meðal annars komið inn í þessu nýju lög að núna eru öll hótel komin með bíla sem þau þurfa ekki að skoða eða tryggja sérstaklega. Af því að tryggingar hótelanna dekka það ef bílarnir valda tjóni. Við erum að borga sjö til átta hundruð þúsund í tryggingar á hverjum bíl sem leigubílstjórar og við erum að borga annað eins til Isavia fyrir að fá koma þangað á ári. Þetta er orðið mikið peninga plokk og rekstrarumhverfið er orðið mjög slæmt eins og þetta er í dag.“
Hvað þýðir þetta þá fyrir ykkur sem eru á A-stöðinni?
„Við fórum djöfullega út úr þessu gosi. Við misstum hótelin við Bláa lónið. Við misstum akstur af hótelunum hér í Reykjanesbæ þar sem við vorum að aka farþegum í Bláa lónið. Einnig höfum við misst akstur milli Bláa lónsins og flugstöðvarinnar. Við misstum allt í Grindavíkurbæ og þetta hefur bara farið mjög illa með okkur. Þessar hamfarir hafa bara farið illa með okkur.“
Menn hafa ekkert verið matvinnungar í vetur
En hvernig var þetta áður?
„Það var náttúrulega mikið meira líf yfir þessu, ef við tökum bara eins og í fyrrasumar. Það var mikið, mikið meira að gera í fyrrasumar og sumarið þar áður. En þetta er heldur að aukast núna. Menn hafa ekkert verið matvinnungar í vetur. Það er bara þannig.“
Hvernig hafið þið svona verið að sinna svæðinu hérna heima?
„Við erum að reyna það sem við getum. Við erum ekki margir og höfum þar af leiðandi kannski ekki flóruna til þess að geta þetta allt. Við þurfum að vera fleiri til að sinna sólarhringsvöktum. Við erum með símavörslu og bíla allan sólarhringinn. Stundum vantar bíla á nóttunni, sem er ósköp eðlilegt en við erum eitthvað rúmlega 50 bílar hérna núna.
Við svörum í símann alla daga ársins, allan sólarhringinn en vinnan hjá okkur hefur verið að dragast mjög mikið saman. Við t.d. þjónustum ekki Reykjanesbæ. Bærinn verslar ekki við okkur. Sjúkrahúsið verslar ekki við okkur. Lögreglan verslar ekki við okkur. Og hið opinbera verslar ekki við stöðina okkar. Þetta er allt bundið í ríkissamning sem boðinn er út í stórum einingum. Og við höfum ekki haft burði til að bjóða í það. Við erum bara það fáir að við höfum ekki gert það. Þetta er bara helvítis ástand á þessu.“
Þannig að í dag eruð þið ekkert endilega bíðandi fyrir utan skemmtistaðina niðri í bæ?
„Nei, það er aðrir í því. Innflytjendurnir eru í því. Þar eru bara raðir af bílum sem eru að skutla. Við erum yfirleitt með bíla um helgar. Það eru yfirleitt svona sex til átta bílar að keyra alla nóttina. En megnið af þessu fer í skutlara. Þetta eru útlendingar sem eru að keyra leyfislausir og allslausir. Það er ekkert gert í þessu. Það er ekkert eftirlit í einu eða neinu.“
Og það er ekkert hlustað á ykkur?
„Jú, við fáum alltaf svar. Það er „Takk fyrir ábendinguna og við munum skoða málið“. En það er örugglega í skoðun. Það er svoleiðis með allt. Það er alveg sama hvar þú kemur að. Frá hinu opinbera er þetta hið staðlaða svar.“
Það er búið að stúta þessu algjörlega
Hvað viljið þið sjá gerast?
„Það er búið að eyðileggja þetta. Það er búið að stúta þessu algjörlega. Ég veit ekki hvernig menn ætla að snúa þessu við. Þú tekur ekki réttindi af mönnum sem er búið að úthluta þeim.
Ég held að það sé helvíti hæpið að það sé hægt. Megnið af þessu fólki sem er að koma inn í þetta núna er að koma erlendis frá. Þeir eru allir með próf. Þeir fara bara í tvö viku námskeið og þá eru þeir orðnir leigubílstjórar.
Í gamla dag var þetta þannig að þú gast ekki fengið leyfi til að reka leigubíl nema að hafa verið búinn að leysa af hjá öðrum í eitt ár. Og á þessu eina ári, þá síuðu stöðvarnar út þá sem ekki voru hæfir. Þeir fengu ekki að keyra á stöðvunum. Stöðvarnar gáfu mönnum leyfi til að keyra og ef þeir stóðu sig ekki, þá fengu þeir ekki að keyra. Í dag er þetta þannig að reynslan byggist aðallega á að vera fullur í aftursætinu. Og það eru margir sem hafa ótrúlega reynslu við því. Og þetta er hlutur sem er að eyðileggja þetta stétt.
Þjónustua sem leigubílstjórar veittu áður var meðal annars þannig að gestir sem voru að fara í Bláa lónið skildu töskurnar sínar eftir í bílnum. Svo voru þeir sóttir aftur tveimur tímum síðar. Ég held að þetta fari að breytast í dag og maður myndir sjálfsagt ekki gera þetta erlendis.“
Og gjaldtakan er orðin frumskógur líka. Fólk sér ekki orðið á gjaldmæli í dag.
„Nei, það er allur gangur í því. Og verðlagningin er náttúrulega frjáls. Menn ráða því hvernig þeir verðleggja sig. Þú ert ekkert að gera neitt ólöglegt. Þú getur verið einn á stöð. Og þá ræður þú bara þínu gjaldi sjálfur. Og það er náttúrulega segir sig sjálft að það er ekkert hægt að taka á þessu.
En væri ekki sanngjarnt fyrir farþega að vita hvað kostar að keyra þessar helstu leiðir?
„A-stöðin hefur verið að keyra frá Keflavíkurflugvelli fyrir 18.000 krónur á litlum bíl í Reykjavík sem er það lægsta sem er í gangi. Á sama tíma getur farið fyrir fjóra menn með rútunni kostað 20.000 krónur. Þá áttu jafnvel eftir að kaupa þér far með leigubíl eða annarri rútu sem skilar þér annað hvort á Skúlagötuna eða Hverfisgötuna. Og þessir rútumiðar eru seldir í flugvélunum. Við teljum okkur vera samkeppnishæfa og rúmlega það miðað við rúturnar.
Þetta er bara hlutur sem skilar sér ekki því það er alltaf sagt að leigubílar séu svo svakalega dýrir.“
Orðið skelfilegt rekstrarumhverfi
Má ekki segja að það sé komið óorð á stéttina eftir þessa ósanngjörnu stöðu sem búið er að setja ykkur í í dag?
„Það er orðið þannig og fólk er mikið á móti okkur því við erum svo miklir okrarar að það er ekki hægt að versla við okkur. Þetta er bara orðið skelfilegt rekstrarumhverfi að standa í eins og þetta er núna. Margir eru bara að hætta og í haust verður mikill flótti Íslendinga úr stéttinni hef ég trú á. Það er svona mín skoðun. Og þá eiga þessa litlu stöðvar engan tilverurétt. Þær geta ekki rekið sig. Við þurfum sex stöðugildi til að geta rekið símsvörun. Það kostar sitt að reka símann. Og það sem okkur sárnar mest er að fá ekkert frá bæjarfélaginu. Ég held að menn séu ekki að átta sig á því hve mörg hundruð milljónum A-stöðin er að velta í gegnum bæjarfélagið. Og afleiðustörfin, bílasalarnir, verkstæðin, dekkjaverkstæðin, þetta er óhemja sem þessi starfsemi er að skilja eftir sig. Þetta er leigubílastöð sem skiptir engu máli í bæjarfélaginu.“
Hvað var það sem fékk þig á sínum tíma þess að gerast leigubílstjóri?
„Ég get sagt þér það. Ég var orðinn svo gamall. Ég átti engin börn til að vera heima hjá veikur. Alls staðar sem ég sótti um fékk ég að vita að ég væri svo gamall að það væri ekki hægt að nota mig. Eins og þetta er í dag þá þarftu að eiga einhver börn til að vera heima hjá þeim veikum. Þá ertu gjaldgengur í vinnu. Ég var nú ekki nefna rúmlega fimmtugur þegar ég fór í þetta, kannski 52 eða 53 ára. Það var alveg sama hvað ég sótt um. Mér var alls staðar sagt að sagt að ég væri of gamall.“
Maður á besta aldri, er það ekki?
„Ég leit þannig á það. En svona er nú bara vinnumarkaðurinn í dag. Það eru mikið fleiri ég sem hafa farið í þetta bara hreinlega út af því að þeir fengu ekki vinnu annars staðar.“
Og alltaf verið að keyra hérna suðurfrá?
„Já, já. Ég hef alltaf verið hérna suðurfrá og nánast alltaf á stöðinni. Ég er ekki að nenna röðinni við flugstöðina. Það er mannskemmandi að koma nálægt því. Það finnst mér. Ástandið er farið að skemma mjög mikið út frá sér. Við höfum verið að reyna að þjónusta fólkið hérna í Keflavík. Við erum með marga sem við þjónustum hérna í bæjarfélaginu.
Við keyrum fólk í flug og bjóðumst til að sækja fólk í flug. Það hefur örlítið verið af því en alls ekki nóg. Svo er fólk kvartandi yfir einhverjum dónaskap og annað þegar það tekur bíl í röðinni við flugstöðina og það bitnar náttúrulega á okkur líka en við erum í þessari stétt.“
Fá 100 metra ökuferð að flugstöðinni
Við höfum svo sem heyrt af því að það bregðast ekki allir bílstjórar við flugstöðina vel við því að fá stuttan túr í Keflavík.
„Nei, við fáum tvo eða þrjá túra á morgnana úr Aurora hótelinu við flugstöðina og þessa 100 metra að flugstöðinni. En þetta getur verið ósköp eðlilegt. Þetta getur verið hreyfihamlað fólk, fólk með börn og fólk með mikinn farangur sem það kemur ekkert þarna út nema með því að taka leigubíl. Við erum í þjónustuhlutverki númer eitt, tvö og þrjú. Það skortir mikið á það í dag að það sé virt.“
Áttu kannski ekki von á því að þú eigir eftir að tóra mikið lengur í þess?
„Já, ég á svo sem ekki von á því. Ég er náttúrulega orðið löglegt gamalmenni og á maður þá ekki að fara njóta þess að vera til? Vera þar sem maður getur farið út á stuttbuxunum á morgnana. Já, maður veit aldrei hvað maður gerir.“
Enginn á stöðina sem ekki talar eða skrifar íslensku
En getur þetta ástand verið svona mikið meira áfram?
„Nei, alls ekki. Þetta gerir ekkert nema bara ganga frá þessu endanlega. Það má alveg skjóta því að A-stöðin er held ég eina stöðin sem er bara með íslenska ríkisborgara og bílstjóra sem tala allir íslensku. Og allir afleysingamenn tala íslensku. Aðrir eiga ekki möguleika á að koma á stöðina. Það er bara númer eitt, tvö og þrjú. Það kemur enginn inn á stöðina sem ekki talar íslensku og skrifar íslensku. Það þarf bara ekki að ræða það. Og það er alveg einhugur um það. Við gætum verið mikið fleiri ef við tækjum inn útlendinga. Eða tækjum inn fólk sem er ekki íslenskumælandi. En það er bara mottó eins og er að taka ekki inn menn sem eru ekki talandi á íslenska tungu. Við erum að keyra hérna viðkvæman hóp, við erum að keyra gamla fólkið og aðra sem jafnvel kunna ekki ensku. Fólk sem vill komast klakklaust í gegnum þetta og fá örugga þjónustu.“
Viðtalið við Kristinn Arnar Pálsson, leigubílstjóra, má sjá í Sjónvarpi Víkurfrétta í spilaranum hér að neðan.