Strekkingur en gleði í Garði
Þrátt fyrir strekkingsvind og smá næðing var margt um manninn í Garði í dag þar sem Sólseturshátíðin fer nú fram í fjórða sinn. Þar var margt til skemmtunar fyrir alla fjölskylduna og var ekki annað að sjá en að allir skemmtu sér hið besta, eins og sést á svipmyndum frá deginum sem komnar eru inn á ljósmyndavef VF hér á vefnum.
Kvölddagskráin hefst kl. 20 þar sem fram koma hljóðfæraleikarar úr Félagi harmonikuunnenda á Suðurnesjum, söngsveitin Víkingar, hljómsveit Vignis Bergmann og G+. Hin árlega hátíðarbrenna verður svo tendruð kl. 22:15 með tilheyrandi söngstemmningu undir stjórn Vignis Bergmann og Magnúsar Kjartanssonar. Dagskrárlok verða á miðnætti.
VF-mynd/elg: Frá Garði í dag.