Straumhvörf – Ný breiðskífa frá tónlistarkonunni Elízu Newman
Þriðjudaginn 22.nóvember 2016 kemur út fjórða sóló breiðskífa tónlistarkonunar Elízu Newman sem kallast Straumhvörf.
Tónlistarkonan Elíza Newman kom fyrst fram í sviðsljósið með hljómsveit sinni Kolrössu Krókríðandi er þær sigruðu Músiktilraunir með látum hér um árið. Hún hefur starfað við tónlist alla tíð síðan og er fjölhæfur listamaður bæði sem lagahöfundur og flytjandi. Elíza hefur farið víða í tónlistarsköpun sinni, og samið allt frá pönki til óperu til eurovision-laga með smá stoppi á Eyjafjallajökli! Hún starfaði erlendis lengi og hefur gefið út fimm plötur með Kolrössu/Bellatrix, eina með hljómsveitinni Skandinavia og þrjár sóló plötur til þessa sem allar hafa hlotið lof gagnrýnenda bæði heima og erlendis. Verður því Straumhvörf tíunda breiðskífan sem Elíza gefur út á ferlinum.
Nýja plata Elízu Straumhvörf var samin og tekin upp í Stereohóli í Höfnum á Reykjanesi með upptökustjóranum Gísla Kjaran Kristjánssyni sem hefur getið sér gott orð sem upptökustjóri og lagahöfundur í London og Oslo siðastliðin ár. Hann hefur meðal annars unnið með listamönnum á borð við Roisin Murphy, Duffy, Katie Dennis og William Hut.
Lög Elízu á þessari plötu gætu verið líst sem rokkskotnu indí poppi með þykkum strengja útsetningum, glitrandi ukulele, gargandi gítar og blokkflautu sólói! Í söngnum er Elíza upp á sitt besta, tvinnar saman angurværð, húmor og krafti eins og henni einni er lagið.
Nú þegar hafa tvö lög af plötunni, Fagurgalinn og Af sem áður var, hlotið frábærar viðtökur og mikla útvarpsspilun á Íslandi.
Straumhvörf kemur út 22.nóvember hjá Lavaland Records og verður fáanlegt á netinu um allan heim, þar á meðal tónlist.is, spotify og itunes.
Smekkleysa SM dreifir plötunni á Íslandi.
Hlusta á plötuna
Vefsíður/websites:
www.facebook.com/elizanewmanmusic/
open.spotify.com/artist/2K4wEBa2FAFBLzck9Z6PL