„Stranger Things er skylduáhorf“
Aron Freyr Kristjánsson er 21 árs Keflvíkingur sem stundar sálfræðinám við Háskólann í Reykjavík. Aroni finnst, eflaust eins og mörgum sem keyra Reykjanesbrautina reglulega, mjög gott að hækka vel í græjunum með góða tónlist í bílnum. Uppáhalds hljómsveit hans er keflvíska reggísveitin Hjálmar en hann heldur líka mikið upp á Villa Vill. Þegar tími gefst nýtir Aron tímann vel í að stunda crossfit og vera með vinum og fjölskyldu.
Bókin: Frá því ég byrjaði í skólanum í haust hefur ekki gefist mikill tími til þess að lesa mér til gamans en góðar bækur hafa þurft að víkja fyrir skólabókum. Síðasta bók sem ég las var Útlaginn eftir Jón Gnarr. Það var mjög áhugaverð lesning en þar segir Jón frá unglingsárum sínum á Núpi í Dýrafirði. Ég sé ekki fram á að hafa mikinn tíma í yndislestur á næstunni þar sem prófatíðin er á næsta leiti. Ég vona þó að einhver góð bók leynist í jólapakkanum í ár.
Tónlist: Ég hlusta mikið á tónlist og hef alltaf gert. Ég byrjaði að spila á gítar þegar að ég var 9 ára gamall og spila enn. Ég nýti hvert einasta tækifæri til að hlusta á tónlist. Upp á síðkastið hef ég verið að keyra Reykjanesbrautina mun oftar en ég nenni en þá er gott að hækka vel í græjunum með góða tónlist. Hljómsveitin Hjálmar er mín uppáhalds hljómsveit og mun líklegast alltaf vera. Ég hlusta aðallega á gamla íslenska og erlenda tónlist. Ég held mest upp á Villa Vill. Einnig held ég mikið upp á John Mayer, þvílíkur snillingur.
Sjónvarpsþáttur: Þegar ég á dauðan tíma þá er ekkert betra en að setjast niður fyrir framan sjónvarpið og horfa á góðan þátt. Uppáhalds þættirnir mínir þessa dagana eru Black Mirror eftir Charlie Brooker, en það var að byrja ný sería. Virkilega áhugaverðir og vandaðir þættir. Nýlega var ég að klára tvær þáttaseríur á Netflix en það voru Narcos sem eru um kólumbíska eiturlyfjabaróninn Pablo Escobar og Stranger Things, sem eru virkilega góðir Sci-Fi þættir. Skylduáhorf fyrir þá sem hafa gaman af góðum þáttum.